Lög

Lög Hollvinasamtaka líknarþjónustu.
1. gr.
Samtökin heita Hollvinasamtök líknarþjónustu.
2. gr.
Hlutverk samtakanna er að styðja við starfsemi Líknardeildar Landspítalans í Kópavogi og annarrar líknarþjónustu á Íslandi.
3. gr.
Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná með því meðal annars:
1) Að einbeita sér að því að líknar- og heilbrigðisþjónusta við sjúka, aldraða og deyjandi verði efld og taki mið af þörfum notenda á grundvelli samráðs við sjúka og aldraða og aðstandendur þeirra.
2) Að stuðla að almennri kynningu á mikilvægi líknarþjónustu.
3) Að vinna með þeim félagasamtökum, sem þegar hafa sýnt þessari starfsemi velvild og rausnarskap eða munu gera það í framtíðinni.
4. gr.
Allir einstaklingar og lögaðilar geta gerst félagar í Hollvinasamtökum
líknarþjónustu með því að greiða árgjald til samtakanna, kr. 3.000 að lágmarki      fyrir einstakling en kr. 10.000 fyrir lögaðila.
5. gr.
Tekjur samtakanna skulu vera:
1) Árgjald félagsmanna.
2) Frjáls framlög félagsmanna eða annarra.
3) Aðrar tekjur, sem til kunna að falla.
Tekjum samtakanna skal varið til rekstrar þeirra og til stuðnings við líknarþjónustu, m.a. með kaupum á búnaði eða beinum rekstrarstyrkjum.
6. gr.
Reikningsár samtakanna er á milli aðalfunda.
7. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfund skal halda
í október ár hvert. Til hans skal boða alla félagsmenn með auglýsingu í fjölmiðli með a.m.k. viku fyrirvara. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi, nema annars sé getið í lögum þessum. Hver félagi hefur eitt atkvæði óháð því, hvert framlag hans til samtakanna er.
8. gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera þessi:
1. Skýrsla og reikningar stjórnar fyrir liðið starfsár.
2. Umræður um skýrslu og reikninga.
3. Lagabreytingar.
4. Kosning stjórnar fyrir komandi starfsár.
5. Kosning tveggja skoðunarmanna.
6. Önnur mál.
9. gr.
Lögum samtakanna verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 hluta fundarmanna. Tillögu að lagabreytingu skal getið í fundarboði.
10. gr.
Stjórn samtakanna skipa fimm menn: Formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Stjórnin er kjörin til eins árs í senn og skiptir sjálf með sér verkum.
11. gr.
Stjórn samtakanna ræður málefnum þeirra með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi þeirra, heldur skrá yfir félaga og framlög og ráðstafar óskilyrtum framlögum.
12. gr.
Verði samtökunum slitið skal stjórn samtakanna leggja fram tillögu til samþykktar um ráðstöfun eigna þeirra á slitafundi samtakanna.
—————-
Heiti samtakanna breytt á aðalfundi 2012 og 1. – 5. gr. auk 12. gr.