769
Tryggvi Gíslason

Fyrir liggur forhönnun að nýjum og glæsilegum Landspítala, háskólasjúkrahúsi. Um hönnunina má lesa á:http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/forsida/. Gert er ráð fyrir að sjúkrahúsið rísi í áföngum og leysi af hólmi stóran hluta starfsemi núverandi Landspítala sem er á 17 stöðum í 100 byggingum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þarf því að bíða – forhönnun fyrsta áfanga er lokið og unnt að hefjast handa um leið og Alþingi hefur tekið um það ákvörðun.

Í kjölfar hrunsins 2008 var horfið frá smíði nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Verkefninu var síðan hleypt af stokkunum á nýjan leik í nóvember 2009 með viljayfirlýsingu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra og lífeyrissjóða um fjármögnun verkefnisins.

Árið 2010 voru samþykkt lög nr. 64/2010 um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Opinbert hlutafélag, Nýr Landspítali ohf. – NLSH, tók til starfa í samræmi við viljayfirlýsinguna og nefnd lög í júlí sama ár. Félagið hefur að markmiði að bjóða út byggingu nýs Landspítala og er heimilt að gera samninga til að ná markmiðum sínum á sem hagkvæmastan hátt. Þó er ekki heimilt að hefja framkvæmdir að loknu útboði fyrr en Alþingi hefur heimilað þær með lögum. Í vor ákvað Alþingi að falla frá ofangreindri leiguleið. Var lögum frá 2010 því breytt þannig að verkefnið er nú hefðbundin ríkisframkvæmd. Forgangsröðun Alþingis, er varðar fjárheimildir í fjárlögum, ræður því framkvæmdahraða og er því óvíst hvenær unnt er að hefjast handa.

Hagkvæm framkvæmd
Í grein sem Alma D. Möller, yfirlæknir á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut, skrifaði í sumar segir að í skýrslu norsks ráðgjafafyrirtækis sé áætlað, að rekstrarlegur ávinningur verði um 2,6 milljarðar á ári. Hagræðing til ársins 2050 sé að nettónúvirði 2,3 milljarðar sem þýðir að hagræðing af byggingunni gerir betur en að greiða upp byggingarkostnað. Væri ekkert byggt, er niðurstaða samsvarandi núvirðisreiknings neikvæð um 25,3 milljarða.

Það er því mun hagstæðara að byggja nýtt en að hafast ekki að og er þá hagur sjúklinganna og starfsmanna ekki reiknaður til fjár. Samkvæmt nýrri áætlun er kostnaður við byggingu fyrsta áfanga 48 milljarðar og kostnaður vegna tækjakaupa, endurnýjunar eldra húsnæðis og fjármögnunar um 36 milljarðar. Gert er ráð fyrir að byggingartími fyrsta áfanga sé 5 ár. Nettónúvirði reksturs Landspítala án nýbyggingar er hinsvegar verulega neikvætt.

Í greininni bendir Alma D. Möller á færa leið til að fjármagna byggingu nýs Landspítala: að íslenskir lífeyrissjóðir láni fé til framkvæmdanna. Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna sé áætluð um 150 milljarðar á ári og fjárfestingatækifæri séu fábreytt. Sjóðina skorti heimild til að fjárfesta í erlendum eignum og tryggir fjárfestingakostir séu fáir innanlands.

„Líklegt er að þátttaka í fjármögnun slíkrar framkvæmdar myndi tryggja ávöxtun sem væri í takt við þá áhættu sem þessari fjárfestingu er samfara. Þar að auki er þetta samfélagsleg fjárfesting og til hagsbóta fyrir umbjóðendur þeirra, lífeyrisþega,“ segir í grein Ölmu D. Möller. Og hún heldur áfram:

„Fyrir liggur endurskoðun fjárreiðulaga. Er rætt um að þeim verði breytt þannig að ríkisstofnanir í A-hluta færi fullt rekstrar- og eignabókhald. Ef fasteignir LSH yrðu settar í sérstakt fasteignafélag, t.d. NLSH ohf., þá gæti Landspítalinn fengið bygginguna til afnota gegn leigugjaldi en byggingin yrði færð til eignar hjá fasteignafélaginu. Þá gæti t.d. NLSH ohf. tekjufært leigu frá Landspítalanum sem dygði til að greiða niður fjármagnskostnaðinn á skilgreindum notkunartíma eignanna. Slíkar lagabreytingar myndu gera leiguleiðina mögulega.“

Undir þessi orð má taka. Nú hafa tíu þingmenn lagt fram þingsályktunartillögu um byggingu nýs Landspítala þar sem segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi byggingar nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja byggingu hans strax að því loknu. Nýr Landspítali ohf. eða ríkissjóður fái heimild til að taka lán fyrir byggingarkostnaði, hvort heldur er beint hjá traustum lánveitendum eða óbeint með milligöngu ríkisins.

Heilsugæsla frá vöggu til grafar er einn af hornsteinum samfélagsins. Traustur Landspítali sem miðstöð lækninga og rannsókna er undirstaða heilsugæslu í landinu. Alþingi þarf nú að sameinast um smíði nýs spítala og gera lífeyrissjóðum kleift að lána til framkvæmdanna. Leiðin er greið og bygging nýs Landspítala við Hringbraut þolir enga bið.

747
Tryggvi Gíslason

Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um velferðarstefnu: heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að jöfnuði í heilsu og lífsgæðum og tryggja aðgengi allra að viðeigandi velferðarþjónustu, óháð efnahag. Þessu markmiði þarf að fylgja eftir án undanbragða.
Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning velferðarstefnunnar og heilbrigðisáætlunarinnar, enda eru þetta mikilsverðir þættir í menningu og þroska þjóðar. Þá er heilbrigði „mikilvægt fyrir menntun, samfélags- og atvinnuþátttöku, efnahagslega þróun og samfélagið í heild,” eins og segir í greinargerð.
Af þeim sökum hefði verið eðlilegt að öll svið heilbriðisþjónustu, forvarnar- og líknarstarfs, ungra og aldinna – frá vöggu til grafar – hefðu verið tekin með í velferðarstefnu og heilbrigðisáætlun þá sem lögð hefur verið fyrir Alþingi, en það er ekki gert.
Hollvinasamtök líknarþjónustu hafa að meginmarkmiði að efla líknar- og heilbrigðisþjónustu við sjúka, aldraða og deyjandi um allt land, þjónustu sem tekur mið af þörfum notenda í samráði við þá sjálfa og aðstandendur þeirra og stuðla að kynningu á líknarhjúkrun.
Í þingsályktunartillögunni er ekki minnst á líknarþjónustu. Hins vegar segir í athugasemdum: „Farið verður yfir stöðu líknarþjónustu á landinu.” Velferðarráðuneytið á að bera ábyrgð á þessu starfi en samstarfsaðilar eru heilbrigðisstofnanir, háskólar og notenda- og félagasamtök. Framkvæmd er í höndum landlæknis og skal verkinu lokið fyrir árslok 2014. Stjórn Hollvinasamtaka líknarþjónustu telur þetta bæði of lítið og of seint, auk þess sem samstarfið þarf að vera víðtækara, m.a. ná til sérhæfðrar líknarhjúkrunar utan stofnana.
Það er því eindregin ósk stjórnar Hollvinasamtaka líknarþjónustu að þessum þáttum verði gerð betri skil og tekið mið af því mikla og góða starfi sem unnið hefur verið á sviði líknarmeðferðar um allt land, bæði innan og utan heilbrigðisstofnana, en sérhæfð heilbrigðisþjónusta hefur unnið sér sess, m.a. með heimahlynningu. Þar sem ekki er grundvöllur fyrir slíka sérhæfða þjónustu í dreifðum byggðum, skal starfsfólk heilbrigðisþjónustu á hverjum stað fá markvissa fræðslu, ráðgjöf og stuðning til að tryggja að fólk geti varið síðustu ævidögunum í heimabyggð sinni, og að það geti orðið raunhæft val að deyja heima með stuðningi heilsugæslu og ráðgjöf sérhæfðs starfsfólks heimaþjónustu.
Það vekur nokkra furðu að heilbrigðisáætlun til ársins 2020, sem á að leysa af hólmi heilbrigðisáætlun til ársins 2010, er svo seint fram komin. Áætlunin tekur naumast gildi fyrr en 2014, vegna afgreiðslu fjárlaga og annars undirbúnings, og kemur því aðeins til með að gilda sjö ár. Af þeim sökum þarf þegar í stað að hefja undirbúning nýrrar heilbrigðisáætlunar.
Í nýrri heilbrigðisáætlun þarf að hafa í huga, að mikill hluti kostnaðar við heilbrigðiskerfið fer sjálfkrafa í sérhæfingu, þá sem veikastir eru og í dýrustu aðgerðirnar, þ.e. sjúkrahúsin. Hins vegar þarf að stórauka forvarnarstarf og daglega þjónustu heilsugæslu við almenning og breyta áherslum, t.d. með auknu aðgengi að ráðgjöf sérfræðinga á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu. Með því er unnt að minnka kostnað sjúkrahúsa. Heilsugæsla í landinu þarf einnig að taka ábyrgð á eftirfylgni og stuðningi við þá sem greinast með lífsstílssjúkdóma eða eru í áhættuhópi og þurfa að breyta lifnaðarháttum sínum.
Þá telur stjórn Hollvinasamtaka líknardeilda að endurskoða þurfi frá grunni áætlun um byggingu svo kallaðs hátæknisjúkrahúss í miðborg Reykjavíkur og efla sjúkrahús og heilsugæslustöðvar um allt land. Síðast en ekki síst þarf að tryggja menntun og kjör starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar á öllum stigum.
Í greinargerð við þingsályktunina segir: „Við gerð nýrrar áætlunar er leitast við að móta framtíðarsýn í heilbrigðismálum til ársins 2020 og lögð fram aðgerðaáætlun til að nálgast þau markmið sem fram eru sett.” Þetta hefur ekki tekist. M.a. er hvergi getið um aðkomu og áhrif sjúklinga eða aðstandenda þeirra sem er eitt höfuðmarkmið nýrrar stefnu Evrópudeildar Alþjóða heilbrigðisálastofnunarinnar, WHO, sbr. t.d. nýja heilbrigðisáætlun sem norska stórþingið samþykkti 2011, samhandlingsreformen, og tók gildi 1. janúar 2012.
Með auknu trausti og aukinni samvinnu ríkis, sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, starfsfólks heilbrigðisþjónustu, sjúklinga og aðstandenda þeirra er unnt að bæta þjónustu á öllum sviðum og nýta betur bæði starfskrafta, þekkingu og fjármuni.

 

707
Tryggvi Gíslason

Heildarstefna í heilbrigðismálum undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi. 

Heilbrigðisþjónusta frá vöggu til grafar er einn af grunnsteinum samfélagsins. Alþingi hefur látið undir höfuð leggjast að móta heildarstefnu í heilbrigðismálum við breyttar aðstæður: breytingar á búsetu, breytta atvinnuhætti, breytt mataræði – og andspænis þeirri dýru en dýrmætu staðreynd að fólk lifir lengur. Nýir sjúkdómar hafa komið fram vegna breyttra samskipta og breyttra viðhorfa og breyttra lifnaðarhátta. Mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum er því knýjandi nauðsyn þar sem tillit er tekið til breytta þarfa og breyttra viðhorfa undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi.
Hollvinasamtök líkardeilda undirbúa því ráðstefnu í Reykjavík 24. september um mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum þjóðarinnar undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi. Með því er átt við kerfi mótað í samráði við sjúka og aldraðra og aðstandendur þeirra á ábyrgð alþingismanna, en ekki mótað af forstöðumönnum spítala og starfsfólki Heilbrigðis- og velferðarráðuneytisins. Gerð er krafa um að Alþingi móti heildarstefnu í heilbrigðismálum þjóðarinnar með tilliti til þarfa notenda á grundvelli samráðs við sjúka og aldraðra og aðstandendur þeirra.
Fyrirmynd notendamiðaðrar heilbrigðisþjónustu er áætlun Norðmanna sem nefnd er Samhandlingsreformen og byggð er á lögum frá 2011. Er áætlunin í samræmi við nýja stefnu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Samhandlingsreformen tók gildi í upphafi þessa árs og er ætlað að taka tillit til þarfa sjúklinga á öllum stigum. Lögð er áhersla á forvarnir fremur en „lagfæringar”, hjálp strax en ekki þegar allt er komið í eindaga, aukið samstarf stofnana innan heilbrigðiskerfisins, þjónustu nær fólkinu, samstarf sérhæfðrar þjónustu og fleiri verkefni til sveitarfélaga. Síðast en ekki síst er lögð áhersla á bætta þjónustu við sjúklinga með því að auka áhrif sjúklinganna sjálfra og aðstandenda þeirra: „bedre for pasientene – sterkere brukermedvirkning”, eins og þetta heitir á norsku.
Til ráðstefnunnar er boðið fulltrúum samtaka aðstandenda sjúkra og aldraðra, frjálsum samtökum um heilbrigðis- og velferðarmál, stéttarfélögum lækna og hjúkrunarfólks, fulltrúum sjúkrastofnana, heilsugæslustöðva og sveitarfélaga svo og alþingismönnum og ráðherrum.
Tryggvi Gíslason
stjórnarmaður í Hollvinasamtökum líknarstofnana

 

721
Örn Bárður Jónsson

Ég hitti þær að loknum vinnudegi. Þær komu beint af vaktinni, dauðþreyttar, eftir að hafa hjúkrað öldruðum á fjölmennri deild, undirmannaðri og vanbúinni af tækjum. Deildin er kölluð biðdeild.  

Hún var opnuð á Landakoti eftir að líknardeildinni þar var lokað þrátt fyrir að yfirstjórnendur LHS hefðu fengið 50 milljónir króna aukafjárveitingu frá Alþingi eftir að Hollvinasamtök líknardeilda höfðu gengið á fund fjárlaganefndar. Deildinni var lokað í trássi við vilja Alþingis.
Í „hagræðingarskyni“ var farið út í breytingar á Líknardeildinni í Kópavogi og Oddfellowreglan látin greiða kostnaðinn að mestu. Þar átti, að sögn stjórnenda, að fjölga rúmum. Staðreyndin er sú að rúmum fyrir deyjandi hefur fækkað og nýja deildin fullbúin er lokuð vegna manneklu. Það kann að líta betur út í reikniforritum yfirstjórnar LHS að láta aðra greiða reikningana en þetta er nú samt allt úr sjóðum samfélagsins.
Í starfi mínu sem sóknarprestur hitti ég stundum fólk sem tjáir sig sorgmætt um þjónustuna sem í boði er fyrir aldraða við dauðans dyr.
Hrunið gerði okkur skráveifu en samt eru til miklir fjármunir í þjóðfélaginu. Álitamál er hins vegar hvernig þeim skuli varið. Þar kemur til sögunnar siðferði okkar og reisn.
Á Landakoti var búið að byggja upp frábæra líknardeild. Þegar til stóð að loka deildinni urðu Hollvinasamtök líknardeilda til með yfir 600 félögum. Samtökin hafa ekki lagt upp laupana, enda þótt orrustan um líknardeildina á Landakoti hafi tapast. Samtökin boða nú til ráðstefnu í Reykjavík 24. september n.k. Þar verður fjallað um mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Við erum ein þjóð og þurfum öll að hafa aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu frá vöggu til grafar.
Nú er komið að þeim skilum í íslenskri sögu að þjóðin lætur ekki lengur skammta sér úr hnefa á sama hátt og hún gerði. Forðum daga flutti Lincoln forseti Bandaríkjanna ávarp í Gettysburg og mælti þar fleyg orð um „stjórn fólksins, af hálfu fólksins og fyrir fólkið“. Þessi orð þurfa að verða leiðarljós okkar Íslendinga í öllum málum – þín vegna, af þinn hálfu, fyrir þig.
Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur, formaður Hollvinasamtaka líknardeilda

 

676
Helgi Ágústsson

Síðastliðið haust tók ég sæti í stjórn Hollvinasamtaka líknardeilda til að stuðla að því að koma í veg fyrir að líknardeild Landspítalans á Landakoti yrði lokað. Ekkert mun hafa verið athugavert við rekstur þessarar deildar. Velferðarnefnd Alþingis féllst á sjónarmið stjórnar Hollvinasamtakanna sem færð voru fyrir því að deildinni yrði ekki lokað og fjárlaganefnd lagði til 50 milljón króna aukafjárveitingu til Landspítalans til þess að halda mætti líknardeildinni gangandi. En embættismenn tóku völdin af hinu háa Alþingi, sem þó er ábyrgt fyrir stefnumörkun í heilbrigðismálum, og sagði upp starfsfólki deildarinnar sem var síðan lokað hinn 1. mars 2012.

Það er sjálfsagt líkt með sannleikann og fjall fyrir norðan sem að Halldór Laxness segir í Íslandsklukkunni að heiti þremur nöfnum eftir því hvaðan á það er horft. Fyrir okkur sem börðumst fyrir því að starfsemin héldi áfram á Landakoti og fulltrúum í velferðarnefndinni var heiti þessarar deildar aðeins eitt – líknardeild Landspítalans á Landakoti. Upphæðin, 50 milljónir króna, er umtalsverð, en hér er ómaklega vegið að fólki sem er að kveðja líf sitt. Vegið þar sem síst skyldi og fækkun um þrjú til fjögur sjúkrarúm orðin staðreynd.

Þótt ég hafi árið 1996 veitt formennsku nefnd embættismanna, fulltrúa úr viðskiptalífinu og alþingismanna sem vann framtíðarsýn fyrir íslensku utanríkisþjónustuna og eflingu hennar hefði ég leyft mér að leggja til að fyrr skyldi lokað s.s. einu sendiráði, en þá að sjálfsögðu með ákvörðun þar til bærra aðila – en ekki embættismanna.

Hollvinasamtök líknardeilda undirbúa nú ráðstefnu í næsta mánuði til að stuðla að nýrri stefnumörkun í heilbrigðismálum sem tekur tillit til lífsnauðsynlegrar þjónustu fyrir neytendur. Líknarþjónusta, sem endurspeglar þá samúð, umhyggju og þjónustu sem við viljum sýna fólki á ævikvöldinu, á ekki að falla þar undir sama flokk og fegrunaraðgerðir.

Kynning og hagsmunir Íslands voru snar þáttur af ævistarfi mínu og m.a. að skýra erlendis í ræðu og riti frá Íslandi og því sem þar gerðist. Sjálfsagt hreykti maður sér oft hátt af því velferðarþjóðfélagi sem við höfum byggt okkur. Frægur bandarískur dálkahöfundur sem skrifaði í 120 dagblöð kom til Íslands fyrir mitt tilstilli árið 2007 til að skrifa um heilbrigðismál og umhverfismál á Íslandi, en ég hafði borið lof á hvort tveggja í hennar eyru. Síðan þá er verri tíð og við ræðum okkar í milli um hnignun heilbrigðiskerfisins.

Umræða um stefnumörkun í heilbrigðismálum kann að einhverju leyti að hafa staðið í skugga umræðu um umbætur á réttarfari og stjórnskipun, en ríka nauðsyn ber til að horfa af raunsýni til framtíðar og meta á hverju við höfum efni, hverjir hafi ákvörðunarvaldið og fyrir hvern er verið að vinna. Í mínum huga eru hagsmunir barna og ungs fólks og aðhlynning deyjandi fólks efst á blaði. Andstreymi lífsins er margvíslegt, en við eigum að létta deyjandi fólki og aðstandendum þess kveðjustundirnar.

Höfundur er fyrrverandi ráðuneytisstjóri og sendiherra.

Morgunblaðið 7. ágúst 2012

 

317
Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir og Svandís Íris Hálfdánardóttir

Eftir Guðlaugu Helgu Ásgeirsdóttur og Svandísi Írisi Hálfdánardóttur

 

Þegar fólk veikist af lífsógnandi sjúkdómi verða miklar breytingar á daglegu lífi, sem í raun fer úr skorðum. Í slíkum aðstæðum er mikilvægt að fólki sé mætt af virðingu og umhyggju af fagfólki í heilbrigðisþjónustunni og að það finni að brugðist sé við af fagmennsku og öryggi með heildarhagsmuni þess að leiðarljósi.

Sjúkdómsmeðferð getur verið flókin og reynir á þann einstakling sem veikur er, sem og fjölskyldu hans. Í sumum tilfellum er lækningu ekki viðkomið en möguleiki er á að halda sjúkdóminum í skefjum um lengri eða skemmri tíma með umfangsmikilli og sérhæfðri meðferð.Líknarmeðferð er veitt þar sem um er að ræða langvinna og/eða lífsógnandi sjúkdóma svo sem krabbamein, ýmsa taugasjúkdóma og hjarta- og lungnasjúkdóma. Líknarmeðferð er yfirleitt í fyrstu veitt samhliða annarri meðferð en eftir því sem sjúkdómsástand versnar eykst vægi líknarmeðferðar. Slík meðferð er því ekki eingöngu veitt við lok lífs þó vægi líknarmeðferðar sé þá mest. Mikil áhersla er á að efla lífsgæði sjúklinga og styðja einstaklinginn og fjölskyldu hans í sjúkdómsferlinu og sorginni.

Líknarmeðferð er skilgreind sem þjónusta við lífið og byggir hún á hugmyndafræði sem má rekja til Cicely Saunders (1918-2005), en hún stofnaði fyrsta líknarheimilið í Bretlandi árið 1967. Í líknarmeðferð eins og hún hefur þróast og fram kemur í skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO, 2002) er áherslan á að bæta lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra andspænis lífshættulegum sjúkdómi. Hornsteinn góðrar líknarmeðferðar felst í meðferð einkenna þar sem tekið er tillit til margra þátta, svo sem líkamlegra, sálfélagslegra og andlegra þarfa, gildismats, trúarþarfa og menningar. Líknarmeðferð gengur út frá þverfaglegri nálgun og áhersla er lögð á heildræna sýn á manneskjuna.

Líknarmeðferð er hluti af þeirri meðferð sem veitt er sjúklingum á mörgum deildum Landspítala en þörf er þó fyrir sérhæfðar einingar sem starfa eftir hugmyndafræði líknarmeðferðar. Sérhæfð líknarmeðferð er einkum veitt á líknardeildum Landspítala, í Kópavogi og á Landakoti, hjá Heimahlynningu Landspítala sem og líknarráðgjafateymi Landspítala, Karitas hjúkrunar- og ráðgjafarþjónustu í Reykjavík, Heimahlynningu á Akureyri og heimahjúkrun á Suðurnesjum.

Á þessum stöðum hefur verið byggð upp fagleg þekking og áratuga reynsla með áherslu á ólík þjónustustig til að mæta sem best ólíkum þörfum sjúklinga. Meginþorri sjúklinga sem fá þjónustu frá sérhæfðum þjónustuaðilum er sjúklingar með dreifðan og langt genginn sjúkdóm. Sjúklingar sem liggja á líknardeild eru þar aðallega vegna flókinna erfiðra einkenna og/eða umönnunar við lok lífs.

Nú stendur fyrir dyrum endurskipulagning á líknarþjónustu sem veitt er á Landspítala og þar með líknardeildunum tveimur. Mikilvægt er í þeirri endurskipulagningu að setja í forgang þarfir þeirra sem eru með langvinna og/eða lífsógnandi sjúkdóma og þurfa á líknarmeðferð að halda. Líknarþjónustan þarf að geta áfram sinnt sérhæfðri líknarmeðferð til að mæta sem best þörfum þeirra sem eru með mikil einkenni sjúkdóms og skertar lífslíkur.

Líknarmeðferð er ein af grunnstoðum góðrar heilbrigðisþjónustu og mikilvægt er að standa vörð um og styrkja þjónustuna, sem og áframhaldandi þróun og uppbyggingu hennar hér á landi.

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir sjúkrahúsprestur á líknardeild Landspítala Kópavogi
Svandís Íris Hálfdánardóttir sérfræðingur í líknarhjúkrun, Landspítala
Birt á Vísir 29. október 2011

 

292
Karen Eiríksdóttir

Karen Eiríksdóttir skrifar

Heldur voru það kaldar kveðjur, sem starfsfólk líknardeildar Landakotsspítala fékk frá yfirvöldum daginn eftir að það sat stolt að undirbúningi tíu ára afmælis deildarinnar. Mikill hugur var í fólki að gera kynningu á deildinni sem best úr garði og segja frá hinu góða starfi sem þar hefur verið unnið með fagmennsku, metnað og hlýju að leiðarljósi. Nú er hins vegar komið að því! Ráðist er að þjónustu við aldraða á líknandi meðferð.

Það hefur verið stórkostlegt að fá að vinna við að hjúkra þessum aldurshópi á síðustu ævidögum fólks. Maður taldi víst að þessi þjónusta fengi að vera í friði, en enn og aftur er ráðist að varnarlausum öldungum, ekki einungis fjölveikum með illvíga sjúkdóma, þrotnum að líkamlegum kröftum, heldur jafnframt með misdjúp sár á sál eftir ýmiss konar missi á langri ævi.

Síðan þetta fallega og virðulega hús, Landakotsspítali, var alfarið tekið í þjónustu aldraðra, hefur manni virst mikil sátt hafa verið í þjóðfélaginu með þá þjónustu sem þar hefur verið veitt, og hafa margir hrósað yfirvöldum fyrir þá ákvörðun á sínum tíma.Á undanförnum árum hefur hins vegar sífellt verið gengið á þá þjónustu, sem fyrr var veitt í húsinu. Rætt er um að sameina eigi þær líknardeildir, sem starfræktar eru innan LSH. Hvað þýðir sú sameining í raun? Ákveðið hefur verið að flytja líknardeild Landakotsspítala í Kópavog, þ.e.a.s. loka líknardeild aldraðra á Landakoti. Þar með er óhjákvæmilega verið að rýra þjónustuna við aldraða.

Undanfarin tvö sumur hafa þessar tvær líknardeildir verið samreknar í Kópavogi. Reynsla er nú fengin á hvað því viðvíkur að reka saman þessi tvö hjúkrunarsvið, annars vegar almenna líknardeild og hins vegar líknardeild fyrir aldraða. Allir hafi verið af vilja gerðir að láta þessa tilraun ganga sem best upp og viljað taka þátt í þeim niðurskurði sem öll þjóðin hefur þurft að ganga í gegnum.

Fullyrða má að báðar þessar líknardeildir veita ómetanlega þjónustu, en um er að ræða tvo mismunandi aldurshópa með mismunandi þarfir. Húsið í Kópavogi er að mínu mati mjög þröngt, og erfitt er að koma þar við ýmsum stórum hjálpartækjum sem beita þarf við þunga sjúklinga sem lítið eða ekkert geta hreyft sig í rúmum sínum. Staðsetning og skipulag deildarinnar á Landakoti hefur hentað vel þessari hjúkrun og umönnun, og hún býður upp á góða nánd við sjúklinga og aðstandendur þeirra, enda var deildin í upphafi hönnuð með þessa þjónustu í huga.

Á Landakoti er opin röntgendeild tvisvar í viku. Þangað þurfa sjúklingar líknardeildar gjarnan að leita. Blóðrannsóknir og sjúkraþjálfun eru einnig í byggingunni og þarf því ekki að leita með þessa þjónustu út fyrir bæjarmörk.

Undanfarin ár hefur verið áberandi hve aldraðir sem innritast á líknardeild Landakotsspítala hafa verið sjúkari en áður. Sömuleiðis hafa fjölskyldur margra þeirra verið orðnar mjög útkeyrðar og margir yfir sig þreyttir. Þetta hefur í för með sér ærið verk fyrir starfsfólk að hjálpa þessum hópi við að láta sér líða vel svo að allir geti gengið sem sáttastir frá kveðjustund. Á síðasta ári nutu liðlega hundrað aldraðir sjúklingar þjónustu líknardeildar aldraðra á Landakoti, ýmist til æviloka eða að meðferð leiddi til þess að þeir gátu farið á hjúkrunarheimili og jafnvel heim til sín.

Gjarnan má minnast á fagurt útsýni af efstu hæð Landakotsspítala þar sem líknardeildin er. Þaðan blasa við listaverk náttúrunnar eins og þau gerast best, og hafa þau oft glatt gömul augu og rifjað upp margar góðar minningar. Sagt hefur verið í gríni að heppni hafi verið að útrásarvíkingarnir þurftu ekki að leita til deildarinnar, þar sem telja má víst að þeir hefðu séð tækifæri í staðsetningunni og viljað greiða hátt gjald fyrir útsýnið. Nú eru það hins vegar ráðamenn heilbrigðisþjónustunnar, sem ætla að loka fyrir þá þjónustu, er veitt hefur verið í húsinu við góðan orðstír.

Margar spurningar hvíla eðlilega á starfsfólki líknardeildar. Rætt er um að heildarsparnaður sé áætlaður um 50 milljónir króna, og þá er mannlegi þátturinn ekki tekinn inn í dæmið. Er þessi ráðstöfun virkilega ómaksins virði?

Ágætu ráðamenn. Hlífum þeim sem aldraðir eru og sjúkir. Leyfum þeim að vera saman á einum stað undir handleiðslu sérfræðinga. Enginn veit hver verður næstur að þurfa að þiggja spítalaþjónustu. Þá er gott til þess að vita að breiður faðmur er opinn á Landakotsspítala til að taka við öldruðum og um leið opnast væntanlega pláss á öðrum deildum fyrir sjúklinga, sem hentar betur sú þjónusta sem þar er veitt. Megum við bera gæfu til þess að veita öldruðum áfram þá þjónustu sem sómi er að!

Karen Eiríksdóttir
Birt á visir.is 2. nóvember 2011.