580

Aðalfundur Hollvinasamtaka líknarþjónustu var haldinn í safnaðarheimili Neskirkju fimmtudaginn 12. nóvember 2015.

Fundarstjóri var Tryggvi Gíslason fyrrverandi skólameistari.

Dagskrá fundarins hófst með erindi Ásdísar Þórbjarnardóttur,hjúkrunar-og lýðheilsufræðings sem bar yfirskriftina:
Líknarþjónusta á Íslandi í alþjóðlegu ljósi.

(Hér fyrir neðan er úrdráttur frá fyrirlesara um efnið).

 Langvinn og lífshættuleg veikindi er lýðheilsuvandamál sem tengist þjáningu, virðingu, umönnunarþörf og lífsgæðum fólks. Þessi hratt vaxandi faraldur er talinn vanmetinn þrátt fyrir umfangið. Rannsóknaniðurstöður benda til að líknarmeðferð sé viðeigandi meðferðarúrræði fyrir langvinna, ólæknandi og lífshættulega sjúkdóma. Þrátt fyrir það njóta aðallega krabbameinsveikir líknarmeðferðar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt áherslu á að þjóðir heims setji sér það lýðheilsumarkmið þannig að allir langveikir einstaklingar sem þarfnast líknarmeðferðar hafi aðgang að sérhæfðri og heildrænni þjónustu.

Rannsókn hefur verið gerð með það að leiðarljósi að öðlast skýra framtíðarsýn og tryggja markvissa stefnumótun, svo auka megi möguleika á framþróun og efla almennan skilning á hvað felist í líknarþjónustu, hverjir eigi að fá líknarþjónustu og hvenær eigi að hefja slíka meðferð.

Til að ná markmiði rannsóknarinnar var í fyrsta lagi skoðuð staða þekkingar í heiminum ásamt því að kanna almennan skilning á líknarþjónustu. Í öðru lagi var tekið saman yfirlit yfir líknarþjónustu á Íslandi. Í þriðja lagi var skoðað hvernig önnur Evrópulönd hafa sett fram stefnumótun á sviði líknarþjónustu og hvað væri hægt að yfirfæra á íslenskan raunveruleika. Í fjórða og síðasta lagi var fengin innsýn í reynsluheim fagfólks með þverfaglega reynslu af umönnun langveikra einstaklinga.

Var það gert til að afla hugmynda varðandi framtíðarstefnumótun en skoðanir og reynsla þeirra sem starfa daglega við líknarmeðferð var talin mikilvægt framlag. Rannsóknaraðferðin var eigindleg og voru þátttakendur alls ellefu. Tekin voru sex hálf opin einstaklingsviðtöl og myndaður einn fimm manna rýnihópur sérfræðinga á sviði líknarmeðferðar. Fræðslumyndin „Líf og líkn“ var jafnframt greind og samþætt viðtölum en í myndinni eru tekin viðtöl við fjölmarga sérhæfða fagaðila á sviði líknarmeðferðar á Íslandi.

Niðurstöður leiddu í ljós að líknarmeðferð er þverfagleg, sérhæfð meðferð með skýra hugmyndafræði. Líknarþjónusta á Íslandi er bæði fjölbreytt og frambærileg en er aðallega í boði fyrir krabbameinssjúklinga. Grasrótin var upphafið og stuðningur félagasamtaka hefur verið ómetanlegur í þróun starfseminnar. Skilningur ráðamanna er til staðar en stefnumótun vantar. Niðurstöður sýndu jafnframt að fagfólk telur mikilvægt að líknarmeðferð verði í boði fyrir alla langveika og ólæknandi einstaklinga.

Að kaffihléi loknu tóku við venjuleg aðalfundarstörf.

 1. Skýrsla stjórnar. Formaður Ingimar Einarsson flutti skýrsluna og reikningar liðins starfsárs voru kynntir af gjaldkera Helga Ágústssyni.
 2. Umræður um skýrslu og reikninga. Hvorutveggja var samþykkt. Ákveðið var að á ekki verði greidd félagsgjöld á yfirstandandi á árinu 2015.
 3. Engar óskir höfðu borist þar  um.
 4. Kosning stjórnar fyrir komandi starfsár. Allir stjórnarmenn gáfu kost á sér áfram.
 5. Kosning tveggja skoðunarmanna. Báðir skoðunarmennirnir samþykktu að vera áfram.
 6. Önnur mál.

Samþykkt var ályktun aðalfundar Hollvinasamtaka líknarþjónustu og er hún eftirfarandi:

Aðalfundur Hollvinasamtaka líknarþjónustu skorar á íslensk stjórnvöld,Alþingi og ríkisstjórn að veita fé til stofnunar og reksturs líknardeildar við sjúkarhúsið á Akureyri. Undirbúningsvinna hefur staðið um árabil og brýn þörf nú til aðgerða af hálfu stjórnvalda.

Í lok fundar var rætt um mikilvægi upplýsinga fyrir okkar félagsmenn með því að efla heimasíðu samtakanna.

Miklvægt að halda árfam að þrýsta á stjórnvöld að setja fram stefnumótun varðandi líknarþjónustu.

Fram kom að framhald verður á umræðu um dauðann, en Ríksútvarpið mun  verða með umræðuþætti um efnið a.m.k. fram yfir áramót í þætti Ævars Kjartanssonar á sunnudagsmorgnum kl. 09:00.

Fleira var ekki til umræðu og var fundi slitið um 21:30.
Fundargerð ritaði Rósa Kristjánsdóttir, ritari Hollvinasamtaka um líknarþjónustu.

633

 Skýrsla
stjórnar Hollvinasamtaka líknarþjónustu
fyrir starfsárið 2014-2015

 

Stjórn Hollvinasamtaka líknarþjónustu hélt fimm fundi á starfsárinu: 27. október og 25. nóvember 2014 og 16. apríl , 17. september og 12. nóvember 2015.

Að loknum aðalfundi 27. október 2014 kom stjórnin saman til að fara yfir stöðu mála. Tryggvi Gíslason hafði þá tilkynnt að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Í stað hans kaus aðalfundur Rún Halldórsdóttur, svæfingalækni á Akranesi, til setu í stjórninni með dynjandi lófataki. Aðrir stjórnarmenn voru sömuleiðis samþykktir einróma til setu í stjórninni. Þá voru þau Katrín Þorsteinsdóttir og Jóhann M. Lenharðsson endurkjörin skoðunarmenn reikninga. Stjórn Hollvinasamtakanna var ekki alveg viðbúin þessum hræringum og ákvað að bíða með val á formanni til næsta fundar.

Á næsta fundi 25. nóvember lýsti Ingimar Einarsson sig reiðubúinn til að taka að sér formennsku á yfirstandandi starfsári. Verkefnum stjórnar var því skipt á eftirfarandi hátt:

Ingimar Einarsson, formaður.
Helgi Ágústsson, gjaldkeri.
Rósa Kristjánsdóttir, ritari.
Kristín Sólveig Bjarnadóttir og Rún Halldórsdóttir, meðstjórnendur.

Á fundinum var rætt um að huga þyrfti betur að stöðu samtakanna og missa ekki sjónar af upphaflegu markmiðum um að  koma að umræðu um heilbrigðisstefnu stjórnvalda og mikilvægi líknarþjónustu á landinu öllu. Sýnt væri að mótun heilbrigðisstefnu til lengri tíma hefði setið á hakanum og líknarþjónusta hafi heldur ekki verið hluti af fyrirhuguðum aðgerðum heilbrigðisyfirvalda um betri heilbrigðisþjónustu.

Stjórnarmeðlimir voru sammála um að gera gangskör að því að bæta heimasíðu samtakanna og sinna betur upplýsingaskyldu sinni við félagsmenn. Var því fljótlega á þessu ári ráðist í hönnun nýrrar vefsíðu.

Á þessum fundi var greint frá undirbúningi að ráðstefnu um líknarmálefni sem fengið hafði vinnuheitið „Samtal um dauðann“ og ákveðið hafði verið að halda þann 16. apríl í Háskóla Íslands. Hollvinasamtökin áttu ásamt Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins, Lífinu samtökum um líknarmeðferð og Landspítalanum frumkvæði að ráðstefnunni. Aðrir sem tóku þátt í undirbúningsstarfinu voru fulltrúar frá Þjóðkirkjunni, Háskóla Íslands, Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Nýrri dögun.

Þann 12. janúar á þessu ári heimsótti nýr formaður og tveir aðrir stjórnarmeðlimir Hollvinasamtakanna líknardeild Landspítalans í Kópavogi og ræddu við forsvarsmenn og starfslið deildarinnar. Tilgangurinn var að fá innsýn í stöðu mála og fá upplýsingar frá fyrstu hendi um hvar skórinn kreppir helst að. Fram kom að um 150 sjúklingar deyja á líknardeildinni árlega. Þar eru nú 12 legurými og einnig er starfrækt dagdeild og heimaþjónusta.

Þrátt fyrir að legurýmum hafi fækkað í líknarþjónustunni á suðvesturhorni landsins þá virðist sem líknardeild Landspítalans hafi, í samstarfi við sjúkrahúsin og félagasamtök, náð að skipuleggja og nýta betur þá þjónustu sem þegar er í boði. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að líknarþjónusta á víða undir högg að sækja og líknardeild á Akureyri, sem mikil þörf er á, er enn fjarlægur draumur.

Fyrrnefnd ráðstefna, sem nú hafði fengið heitið „ Listin að deyja“, var haldin í hátíðarsal Háskóla Íslands þann 16. apríl síðastliðinn. Aðsókn fór fram úr björtustu vonum undirbúningsnefndar og var það hald manna að um 500 manns hafi sótt ráðstefnuna. Ráðstefnan var öllum opin og ljóst þykir af þessari miklu þátttöku að opin umræða um málefnið er þörf.

Rósa Kristjánsdóttir, djákni og ritari Hollvinasamtaka líknarþjónustu, setti ráðstefnuna og minnti á að hún og aðrir þeir sem staðið höfðu að undirbúningnum hefðu það sameiginlegt að hafa starfað í nálægð dauðans í mörg ár og fundið þörfina fyrir samtalið um hann.

Markmiðið með ráðstefnunni var að opna  umræðuna um dauðann sem hluta af veruleikanum og hinu daglega lífi. Dauðinn væri óumflýjanlegur hluti lífsins og útgangan úr lífi okkar merk og mikilvæg stund, rétt eins og inngangan. Sú staðreynd að öll munum við deyja ætti að vera okkur sem einstaklingum og samfélagi hvatning til að lifa í samræmi við þá staðreynd. Opnská umræða gæti fært fjölskyldum vissan létti og meiri sátt. Svo nefnd séu nokkur þeirra atriða sem bar á góma á fundinum.

Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni var Peter Fenwick, prófessor emeritus í taugasálfræði, og var heitið á erindi hans:

 • The importance of end of life experiences for living and dying.

 

Prófessor Peter Fenwick hefur stundað rannsóknir á upplifun fólks, virkni heilans og reynslu í aðdraganda andláts.

Að loknu erindi prófessors Fenwick kynnti Sveinn Kristjánsson vefinn aevi.is og þar á eftir var  pallborð. Var hér um að ræða bæði fróðlegar og skemmtilegar umræður.

Þátttakendur í pallborðinu voru:

 • Andri Snær Magnason, rithöfundur.
 • Arndís Jónsdóttir, aðstandandi.
 • Jón Ásgeir Kalmansson, heimspekingur,
 • Sólveig Birna Júlíusdóttir, sálfræðinemi,
 • Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur, og
 • Þórhildur Kristinsdóttir, læknir.

Næsti stjórnarfundur var 16. apríl eða sama dag og ráðstefnan Listin að deyja var haldin. Af því tilefni ákvað stjórnin að veita undirbúningsnefnd ráðstefnunnar 100 þús. kr. fjárveitingu til þess að standa straum af kostnaði við ráðstefnuhaldið. Á fundinum var bent á nauðsyn þess að taka saman yfirlit um stöðu líknarþjónustunnar. Einnig komu fram óskir um að efna til fundar um líknarmálefni með nýjum landlækni.

Í framhaldi af því var rætt um hvort Hollvinasamtökin ættu að hafa frumkvæði að því að efna til málþings um forgangsröðun í heilbrigðismálum. Þannig ráðstefnur voru haldnar hér á landi og víða um lönd í lok síðustu aldar og byrjun þessarar. Það væri hins vegar spurning hvort Hollvinasamtökin ættu ein og sér að standa að slíku ráðstefnuhaldi eða leita eftir samstarfsaðilum um slíkt verkefni.

Þann 17. september sl. kom stjórn Hollvinasamtakanna saman til fundar í Reykjavík. Til umræðu á fundinum var ráðstefnan um Listina að deyja, staða líknarþjónustunnar, framtíð samtakanna og samstarf við aðra aðila, LOGO samtakanna, alþjóðlegur dagur líknar 10. október 2015 og komandi aðalfundur.

Stjórnarmeðlimirnir lýstu aftur ánægju sinni með hvernig tekist hafði til með ráðstefnuna 16. apríl og þá sérstaklega hina miklu þátttöku í henni. Jafnframt var minnt á að nauðsynlegt væri að flýta upplýsingaöflun um líknarþjónustu í landinu. Ein leið gæti verið að efna til fyrirlestra og fræðslufunda um líknarmálefni. Sömuleiðis væri framtíðarstefnumótun  samtakanna og samstarf við aðra aðila mikilvægt, því samtakamátturinn skili jafnan betri árangri en þegar hver og einn er að bauka í sínu horni.

Í lok fundarins var fjallað var um hugmyndir að LOGÓi samtakanna, en öllum ákvörðum þar að lútandi var slegið á frest. Ekki var efnt til sérstakrar dagskrár á alþjóðlegum degi líknar 10. október, en þema dagsins í ár var Hidden Lives, Hidden Patients / Líf og líkn í felum og bíður frekari umfjöllun um þetta efni betri tíma. Loks var rætt um undirbúning aðalfundar og ákveðið að halda hann í byrjun nóvember.

Síðasti stjórnarfundurinn á starfsárinu var kl. 19:00 í dag 12. nóvember til að undirbúa þennan aðalfund.

Var því sérstaklega fagnað að Ásdís Þórbjarnardóttir, hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur, skuli hafi tekið að sér að flytja erindi á aðalfundi. Heiti fyrirlestarins er „Líknarþjónusta á Íslandi í alþjóðlegu ljósi.“ Þess ber að geta að Ásdís varði meistaraverkefni með sama nafni við Háskólann í Reykjavík árið 2009 og hefur síðustu árin starfað við hjúkrunar- og ráðgjafarþjónustuna Karitas. Er það von stjórnar Hollvinasamtakanna að fyrirlestrahald á aðalfundi eða í tengslum við hann sé aðeins byrjun á meira samstarfi við stofnanir, félagasamtök, fagfólk og aðra sem láta sig málefni líknarþjónustu einhverju varða.

Bestu þakkir.

 

 

Flutt af formanni á aðalfundi 14. nóvember sl.

305

Aðalfundur Hollvinasamtaka líknarþjónustu var haldinn í Neskirkju þriðjudaginn 29. október 2013 kl. 20:00

Dagskrá
1. Skýrsla stjórnar og reikningar liðins starfsárs
2. Umræður um skýrslu og reikninga
3. Lagabreytingar
4. Kosning stjórnar fyrir komandi starfsár
5. Kosning tveggja skoðunarmanna
6. Önnur mál

Formaður, Örn Bárður Jónsson setti aðalfund og skipaði Óla Þ. Guðbjartsson fundarstjóra.
1.    Formaður flutti skýrslu stjórnar. Tryggvi Gíslason gjaldkeri lagði fram reikninga Hollvinasamtaka líknarþjónustu. Um 400 félagar greiddu félagsgjald til samtakanna.

2.   Umræður urðu um skýrslu stjórnar og reikninga.  Fundarstjóri þakkaði stjórninni störfin. Undanfarin tvö ár hafa verið haldnar tvær ráðstefnur. Sú fyrri um heilbrigðiskerfið í heild þar sem m.a. var veitt innsýn inn í störf í heilbrigðiskerfinu í Noregi sem hafa farið inn á nýjar brautir með notendamiðuðu heilbrigðiskerfi. Seinni ráðstefnan fjallaði um gildi líknarþjónustu.

3.  Engar lagabreytingar voru á dagskrá.

4.  Kosning stjórnar. Formaður Örn Bárður gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu vegna anna. Fundarstjóri þakkaði Erni Bárði hversu drengilega hann brást við í upphafi og hefur staðið í stafni og stýrt með sóma. Dr. Ingimar Einarsson var kjörinn í stjórn.

5.  Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga. Þau sem verið hafa síðasta voru endurkjörin:Katrín Þorsteinsdóttir og Jóhann Lenharðsson.

6.  Önnur mál.  Fráfarandi formaður Örn Bárður Jónsson þakkaði samstarf innan stjórnar. Mikilvægt væri að vekja athygli á líknarþjónustu og þar væri þátttaka almennings nauðsynleg. Erni Bárði var færð lítil gjöf frá samtökunum nóvemberkaktus sem hann vonar að endist fram í desember.
Tryggvi Gíslason benti á mikilvægi þess að benda á það sem vel er gert í heilbrigðiskerfinu. Mest væri talað um það sem aflaga hefur farið.  Mikilvægt væri einnig að efla heimasíðuna Hollvinasamtakanna og kynna þar sem starf þeirra.

Fundi slitið um 21:00
Rósa Kristjánsdóttir ritari

 

359

Stofnfundur Hollvinasamtaka Líknardeilda Landspítalans, Landakoti og Kópavogi, haldinn í safnaðarheimili Neskirkju miðvikudaginn 26. október 2011, á 10 ára afmælisdegi Líknardeildarinnar að Landakoti.

Fundargerð

Stofnfundinn sátu um 140 manns.

Óli Þ. Guðbjartsson, fyrrverandi skólastjóri, setti stofnfundinn og bauð fundargesti velkomna. Hann lagði til að Jóhann M. Lenharðsson yrði ritari fundarins og var það samþykkt.

Óli rakti síðan forsögu þess að boðað var til stofnfundarins, en tilefnið er ákvörðun um að loka Líknardeildinni að Landakoti og flytja hluta starfsemi hennar til Líknardeildarinnar í Kópavogi. Afleiðingin er sú að sjúkrarýmum líknardeildanna fækkar. Óli greindi frá þríþættum tilgangi með stofnun Hollvinasamtakanna, þ.e.:
1) Að einbeita sér að því að starfsemi Líknardeilda Landspítalans að Landakoti og í Kópavogi verði efld og með því komið í veg fyrir fækkun sjúkrarýma á báðum stöðunum.
2) Að stuðla að almennri kynningu á mikilvægi þeirrar starfsemi, sem fram fer á Líknardeildunum að Landakoti og í Kópavogi.
3) Að vinna með þeim félagasamtökum, sem þegar hafa sýnt þessari starfsemi velvild og rausnarskap eða munu gera það í framtíðinni.

Óli greindi síðan frá þeirri fyrirætlan að bera undir fundinn tillögu að stofnun Hollvinasamtaka Líknardeilda Landspítalans, Landakoti og Kópavogi. Að því gefnu að tillagan yrði samþykkt yrði tillaga að lögum samtakanna borin undir fundinn.

Óli gat þess að skammur tími væri til stefnu en ætla mætti að nægilegur fjöldastuðningur sé fyrir hendi og hann yrði að virkja. Verkefni næstu vikna yrðu tvíþætt, þ.e. að einbeita sér að því að safna félögum í samtökin og mynda þannig fjöldastuðning, en jafnframt og ekki síður að halda uppi linnulausri rökræðu við stjórnvöld, til að koma í veg fyrir lokun Líknardeildarinnar að Landakoti, sem fyrirhuguð er snemma árs 2012.

Óli kynnti síðan tillögu að eftirfarandi ályktun sem yrði borin undir fundinn ef af stofnun samtakann yrði: „Stofnfundur Hollvinasamtaka Líknardeilda Landspítalans, Landakoti og Kópavogi, haldinn í safnaðarheimili Neskirkju, miðvikudaginn 26. október 2011 sendir öllu starfsfólki Líknardeildarinnar að Landakoti innilegar afmæliskveðjur á tíu ára afmæli deildarinnar. Jafnframt eru þökkuð þau mikilvægu og frábæru störf, sem unnin hafa verið á deildinni undanfarinn áratug.“

Óli greindi síðan frá því að síðar á fundinum yrði orðið gefið laust og tillögur til ályktana ræddar, sem og önnur mál sem fundinn varða, en áður en til þess kæmi myndu tveir læknar flytja ávörp:

A.
Fyrstur tók til máls Þorbjörn Jónsson, nýkjörinn formaður Læknafélags Íslands, sem hóf mál sitt á því að greina frá afstöðu Læknafélags Íslands til þessa máls. Fyrirséð er fækkun um 4 legurými af 18. Læknafélagið og margir læknar hafa á undanförnum árum varað við þeim mikla niðurskurði sem átt hefur sér stað frá hruni. Læknaráð Landspítalans hefur frá 2008 ályktað um þessi mál. rætt hefur verið við stjórnmálamenn, ráðherra, skrifað greinar í blöð og sjónarmiðum komið á framfæri í öðrum fjölmiðlum. Þorbjörn áréttaði að læknar hefðu sýnt því skilning, sér í lagi strax eftir hrunið 2008/2009 að spara þyrfti og sýna ráðdeild í heilbrigðiskerfinu, sem annarstaðar, en menn hafi ekki búist við svo gríðarlegum niðurskurði og nú fari fjórða niðurskurðarárið í hönd. Jafnvel þótt 1,5% niðurskurður á næsta ári hljómi e.t.v. ekki sem há tala þá hafi nú þegar verið skorið svo mikið niður að ekki sé af neinu að taka. Samdráttur nemi tugum prósenta og Afleiðingin er minni þjónusta, meira álag og ábyrgð lendir á aðstandendum sjúklinganna, biðlistarnir lengjast, vinnuálag á heilbrigðisstarfsfólk vex vegna fækkunar, líkur á mistökum aukast og svona mætti áfram telja.

Þorbjörn greindi frá ályktun Læknafélags Íslands á aðalfundi sínum í síðustu viku. Aðalfundarályktunin var samþykkt og nefnist „Áskorun til stjórnvalda“ og las Þorbjörn hana upp:

Aðalfundur Læknafélags Íslands
20.–21. október 2011

Áskorun til stjórnvalda

Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Kópavogi 20.-21. október 2011, skorar á stjórnvöld að skilgreina hvaða heilbrigðisþjónusta teljist felast í sjúkratryggingu almennings á Íslandi.

Í ljósi boðaðs niðurskurðar á framlögum til heilbrigðisþjónustu í fjárlagafrumvarpi 2012 er borin von að heilbrigðisstofnanir geti sinnt óbreyttri sömu þjónustu við landsmenn og verið hefur. Fjórða árið í röð skal skorið niður í heilbrigðisþjónustu. Það er algerlega ómögulegt að tala um hagræðingu í þessu samhengi. Búið er að hagræða eins og mögulegt er. Frekari sparnaður næst ekki nema með því að ákveða hvaða heilbrigðisþjónustu skuli veita áfram og hvaða heilbrigðisþjónustu skuli hætta að veita.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er það velferðarráðherra sem markar stefnu um heilbrigðisþjónustu og fyrirkomulag hennar. Þegar fyrir liggur að enn á að draga úr fjárframlögum til heilbrigðisþjónustu ber velferðarráðherra að ákveða hvaða heilbrigðisþjónustu skuli halda áfram að veita og hvaða heilbrigðisþjónustu skuli leggja af. Það er ekki hægt að ætlast til þess að veitendur þjónustunnar taki slíkar ákvarðanir, enda eru slíkar ákvarðanir ekki á þeirra færi.

Aðalfundur Læknafélags Íslands áréttar þá skoðun félagsmanna að sérhverju verki innan heilbrigðisþjónustunnar skuli sinna á þann hátt sem hagkvæmast er og öruggast fyrir þá sem þjónustunnar njóta.

Þorbjörn ræddi síðan efnisinnihald ályktunarinnar, sem er í fjórum liðum:
„Í fyrsta lagi viljum við að íslensk stjórnvöld skilgreini hvaða þjónusta falli undir sjúkratryggingahugtak almannatrygginga. Í heilbrigðislögum segir að landsmenn eigi að eiga kost á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er að veita hverju sinni. Hvað er besta heilbrigðisþjónusta er hins vegar ekki skilgreint. Læknafélagið hvetur stjórnvöld til að athuga þetta, það er ekki óeðlileg krafa almennings að vita hvaða þjónustu við eigum rétt á að njóta, að slíka skilgreiningu sé að finna á blaði. Líkt og þegar við semjum við tryggingafélagið okkar. Þar stendur hvað verður bætt og hvað ekki.

Það er ekki eðlilegt að það geti verið breytilegt frá ári til árs hvað sé í boði, eða jafnvel að forstöðumenn einstakra stofnana geti ákveðið að leggja ákveðna þjónustu af án þess að stjórnvöld beri neina sérstaka ábyrgð á því. Það má t.d. benda á sums staðar erlendis er það sem nefna mætti þjónustutrygging eða “ventelistegaranti” í Noregi, en þar er til að mynda skilgreint hver sé hámarksbiðtími sjúklinga eftir þjónustu, til dæmis eftir liðskiptaaðgerð eða hjartaþræðingu ef grunur er um hjartasjúkdóm.

Í öðru lagi vekjum við athygli á því í ályktun læknafélagsins að í niðurskurðinum núna, fjórða árið í röð, er enginn hagræðingarmöguleiki eftir. Nú verður að skerða þjónustuna og loka fyrir eitthvað sem við höfum áður notið.

Í þriðja lagi bendir læknafélagið á að heilbrigðisráðherra markar stefnuna í heilbrigðismálum og fyrirkomulagi hennar lögum samkvæmt. Þegar kreppir að ber því ráðherranum að forgangsraða, það er ekki bara hægt að láta forstöðumönnum stofnana eftir að ákveða hvað verður gert eða ekki gert.

Í fjórða lagi vill læknafélagið að heilbrigðisþjónustan sé veitt þar sem hagkvæmast er að veita hana og jafnframt öruggast. Um þetta ættu flestir að geta verið sammála.“

Niðurlagsorð Þorbjarnar voru að vekja athygli fundarmanna á því að „[þ]að er auðvelt og getur tekið stuttan tíma að brjóta niður það sem vel hefur verið gert og tekið langan tíma að byggja upp.“

B.
Þá tók til máls Pálmi V. Jónsson yfirlæknir og hóf mál sitt á að þakka Óla Þ. Guðbjartssyni og félögum hans fyrir frumkvæði í stofnun Hollvinasamtaka líknardeilda á 10 ára afmæli deildarinnar að Landakoti.

Pálmi rakti sögu líknardeildar aldraðra en „Líknardeild aldraðra var árangur þriggja ára þróunar- og gæðastarfs á almennri öldrunarlækningadeild sem viðbrögð við þörfum þeirra einstaklinga sem höfðu erfiðustu sjúkdómseinkennin við lífslok. Starfsfólk hannaði verkferla og deildin fékk aðsetur á 5. hæð Landakots í 9 einbýlum. Framkvæmdasjóður aldraðra styrkti húsnæðisbreytingar en Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og Styrktarsjóður Landakotsspítala lögðu til húsmuni og hefur Kvennadeildin stutt dyggilega við starf deildarinnar allar götur síðan. Deildin þjónar nú um 100 manns á ári með fjögurra vikna meðallegutíma. Rekstrarkostnaður er um 100 milljónir. Umönnun allra starfsmanna á deildinni hefur alla tíð verið í anda hjúkrunar: hugur, hjarta, hönd.“

Pálmi benti á hve sérkennilegt það væri að á 10 ára afmæli deildarinnar hefðu verið tilkynntar fyrirætlanir um að loka líknardeild aldraðra. Fyrir slíku væru engar skynsamlegar forsendur heldur væri hugmyndin afsprengi krókaleiða fjárlagagerðar. Hins vegar hefði starfsfólk deildarinnar gert sér glaðan dag á þessum afmælisdegi deildarinnar enda væri margs að minnast og mörgu að fagna. Ætla má að á þeim 10 árum sem deildin hefur starfað hafi hún veitt 850 manns hjálp, og ef með eru taldar fjölskyldur þeirra sem lagst hafa inn á deildina má ætla að um 10.000 manns hafi notið þjónustunnar þar.

Þá greindi Pálmi frá því að „Bryndís Gestsdóttir, deildarstjóri líknardeildar aldraðra frá upphafi, og hennar félagar gerðu rannsókn á einkennum þeirra sem lögðust inn á líknardeild aldraðra á ákveðnu tímabili. Flestir höfðu illkynja sjúkdóm á lokastigi. Eftirtalin einkenni voru skoðuð og hlutfall þeirra sem hafði einkennin skráð: örmagna (90%), lystarleysi (82%), þrálátir og sárir verkir (78%), næringarskortur (72%), mæði við áreynslu (54%), munnþurrkur (47%), skert félagsleg þátttaka (47%), depurð (43%), svefnerfiðleikar (40%), hægðatregða (38%), ógleði (28%) og bjúgur(27%). Flestir höfðu mörg einkenni og auk þess líkamlegt færnitap en sumir byrjandi minnisskerðingu.“

Ljóst var af viðbrögðum fundarmanna að þessi upptalning vakti mikla athygli.

Pálmi vék síðan að aldurssamsetningu þjóðarinnar og þeirri stefnu stjórnvalda að sjúklingar búi heima hjá sér svo lengi sem það er unnt. „Öldruðum fjölgar og háöldruðum mest. Þeir sem eru 65 ára og eldri eru 10 sinnum líklegri til að fá krabbamein og 15 sinnum líklegri til að deyja úr krabbameini en þeir sem yngri eru. Lokun líknardeildar aldraðra er í sterkri mótsögn við lýðfræðilega þróun en einnig í mótsögn við stefnu stjórnvalda að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu svo lengi sem kostur er en veita viðeigandi þjónustu þegar þörf er á. Á líknardeild aldraðra hefur lagst fólk sem í takt við stefnu stjórnvalda hefur búið heima þar til allt hefur þrotið og það þarf á sérhæfðri einkennameðferð að halda síðasta mánuðinn.“

Pálmi minnti fundarmenn á að fyrirhugaður 50 milljóna sparnaður eigi að nást með því að leggja niður 4 hjúkrunarrými á Landakoti en flytja til Líknardeildarinnar í Kópavogi þau 5 sem þá eru eftir. Vandséður væri ávinningurinn við þetta því á Landakoti væri fullbúin deild og hagkvæm í rekstri, en í Kópavogi þyrfti að ráðast í framkvæmdir til að koma þessum 5 sjúklingum fyrir í nærliggjandi húsi. Þá væri ljóst að þeir 4 sjúklingar sem nú myndu ekki fá pláss á líknardeild myndu væntanlega leggjast inn á Landspítalann við Hringbraut eða í Fossvogi, og ekki væri sparnaður í því.

Ljóst væri að umræðan snérist í raun ekki um neitt annað en forgangsröðun og með vísan til þess benti Pálmi á að seint á síðustu öld hefði þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Ingibjörg Pálmadóttir, sett á laggirnar nefnd um forgangsröðun, sem hefði fjallað ítarlega um málið frá mörgum hliðum. Í kjölfarið var síðan gefið út sérstakt rit um niðurstöður nefndarinnar. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, auk fjölmargra annarra, m.a. fagstétta og sérfræðinga á mörgum sviðum. Skýrsla nefndarinnar var viðamikil og almenn sátt var um hana.

Pálmi vakti síðan athygli á örfáum atriðum í skýrslunni:
◊ Heilbrigðisþjónusta skal vera réttlát.
◊ Meðferð og umönnun við lífslok skal miðast við óskir einstaklingsins og/eða aðstandenda og vera eins nærgætin og frekast er unnt.
◊ Eftirtaldir þjónustuþættir og tegundir þjónustu skulu hafa forgang (þessi forgangur miðast við þörf
fyrir heilbrigðisþjónustu):
I. Meðhöndlun alvarlegra bráðatilfella, lífshættulegra sjúkdóma, jafnt líkamlegra sem geðrænna,
og slysa sem geta leitt til örorku eða dauða án meðferðar.
II. Heilsuvernd sem sannað hefur gildi sitt.
Meðferð vegna alvarlegra langvinnra sjúkdóma.
Endurhæfing og hæfing.
Líknandi meðferð.

Pálmi vakti athygli á því að líknandi meðferð væri hér í öðrum forgangi af fjórum. Slíkt þýddi að þjónustu í þriðja og fjórða forgangi kæmi fyrr til álita í niðurskurði ef sú staða kæmi upp. Því yrði ekki annað séð en tillaga um að leggja niður Líknardeildina að Landakoti væri í hrópandi mótsögn við stefnumörkun í forgangsröðunarskýrslunni.

Þá vakti Pálmi athygli á því að í „starfi nefndarinnar kom einnig fram að ef forgangsraða ætti í heilbrigðisþjónustu þá ætti það að gerast í opnu ferli og af til þess bærum aðilum. Siðferðilega væri eðlilegt að Alþingi stæði að slíkri opinni og meðvitaðri umræðu og ákvarðanatöku. Í því samhengi er athyglisvert að einhugur var um niðurstöður hins umfangsmikla nefndarstarfs í öllum stjórnmálaflokkum.“

Pálmi minnti síðan á að óþarfi væri að finna upp hjólið því skýrsla um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu væri til, og lýsti þeirri von sinni að takast mætti að vinna með alþingismönnum til að koma í veg fyrir að þessi slæma hugmynd um niðurskurð yrði að veruleika. Slíkt yrði best gert með því að auka framlög til Landspítalans um 50 milljónir og eyrnamerkja það fé Líknardeildinni að Landakoti.

Niðurlagsorð Pálma voru: „Að lokum vil ég segja það – að hvernig sem allt veltur – þá er ómetanlegt fyrir fagfólk að finna velvilja og hlýju fólks sem kann að meta það þegar starfsfólk leggur sig fram um að vinna vel. Það er einmitt það sem allt starfsfólk deildarinnar gerir á hverjum degi og vil ég fyrir mína parta þakka fyrir það. Og þakka ykkur fyrir stuðninginn. Gangi okkur vel.“

Óli þakkaði Þorbirni og Pálma fyrir góð og efnisrík ávörp og fróðlegar upplýsingar.

Óli bar því næst upp eftirfarandi tillögu að ályktun fundarins:

„Fundur haldinn í safnaðarheimili Neskirkju, miðvikudaginn 26. október 2011 samþykkir að stofna Hollvinasamtök Líknardeilda Landspítalans, Landakoti og Kópavogi.“

Fundarmönnum var boðið að tjá sig um tillöguna. Enginn tók til máls um efni hennar og var hún þá borin undir atkvæði og samþykkt með handauppréttingu. Enginn greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Þá var borin undir fundinn eftirfarandi tillaga að afmæliskveðju til Líknardeildarinnar að Landakoti:

„Stofnfundur Hollvinasamtaka Líknardeilda Landspítalans, Landakoti og Kópavogi, haldinn í safnaðarheimili Neskirkju, miðvikudaginn 26. október 2011 sendir öllu starfsfólki Líknardeildarinnar að Landakoti innilegar afmæliskveðjur á tíu ára afmæli deildarinnar. Jafnframt eru þökkuð þau mikilvægu og frábæru störf, sem unnin hafa verið á deildinni undanfarinn áratug.“
Tillagan var samþykkt með handauppréttingu. Enginn greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Þá var tillögu að lögum samtakanna dreift til fundarmanna. Óli kynnti tillöguna sem er í 12 greinum og las hana upphátt, grein fyrir grein. Orðið var gefið laust en enginn tók til máls. Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með handauppréttingu. Enginn greiddi atkvæði gegn tillögunni. Þar með lágu fyrir samþykkt lög samtakanna og þau eru skjalfest með viðauka þessarar fundargerðar.

Því næsti kynnti Óli tillögu sem þeir sem að fundinum stóðu undirbjuggu, þ.e. tillögu um 5 stjórnarmenn:
Helga Guðmundsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri
Helgi Ágústsson, fyrrverandi sendiherra
Oddrún Kristjánsdóttir, umhverfisfræðingur og framkvæmdastjóri
Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari
Örn Bárður Jónsson sóknarprestur

Engar aðrar tillögur komu fram og var tillagan þar með borin undir atkvæði og samþykkt með handauppréttingu. Enginn greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Þá bar Óli upp tillögu sem þeir sem að fundinum stóðu undirbjuggu, þ.e. tillögu um 2 skoðunarmenn:
Jóhann M. Lenharðsson lyfjafræðingur
Katrín Þorsteinsdóttir lífendafræðingur

Engar aðrar tillögur komu fram og var tillagan þar með borin undir atkvæði og samþykkt með handauppréttingu. Enginn greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Óli óskaði fyrstu stjórn samtakanna til hamingju með kjörið, sem og skoðunarmönnum og hvatti stjórnina til dáða. Báran væri kröpp framundan og að mörgu að hyggja. Því næst gaf Óli orðið laust til fundarmanna og þá ekki hvað síst til nýkjörinna stjórnarmanna en greindi jafnframt frá því að einn stjórnarmanna, Tryggvi Gíslason, hefði ekki getað mætt til fundarins þar eð hann væri við störf að Hrauni í Öxnadal.

Örn Bárður Jónsson tók til máls og lýsti ánægju sinni með góða mætingu á fundinn, auk þess sem hann vissi fyrir víst að miklu fleiri úti í samfélaginu styðja samtökin. Hann hét því að gera sitt besta til að efla samtökin og hvatti fundarmenn til að skrá sig sem stofnfélaga. Örn sagði það skipta miklu máli að líknardeildirnar eflist og þekkir mikilvægi þeirra sem prestur og sem aðstandandi. Örn benti á að starfsemi líknardeildanna segi ýmislegt um okkur sem þjóð. Stjórnvöldum sé ekki ætlað neitt illt, þau standi í niðurskurði, en mikilvægt sé að efla líknardeildirnar í stað þess að draga úr starfseminni.

Þá kvaddi sér hljóðs Björg Þórhallsdóttir, söngkona og hjúkrunarfræðingur á Líknardeildinni Landakoti, og þakkaði Óla Þ. Guðbjartssyni framtak hans og velvilja allra sem að málinu koma. Björg bauð fram starfskrafta sína fyrir samtökin og kvaðst vilja efna til styrktartónleika til að afla fjár fyrir hin nýstofnuðu samtök og leggja fram krafta sína sem listrænn stjórnandi og söngkona. Björt óskaði eftir því að stjórn og sjálfboðaliðar sæju um ýmis atriði varðandi framkvæmd, ef af styrktartónleikum yrði, en kvaðst fús til ráðgjafar um öll slík mál. Vilji Bjargar er sá að tónleikarnir verði haldnir 17. nóvember nk. og þá í Kristskirkju, sem væri vel við hæfi og skemmtileg tenging við Líknardeildina að Landakoti.

Óli þakkaði Björgu fyrir þessa miklu velvild hennar og sagði ljóst að hér talaði hann fyrir hönd fundarmanna því ánægja þeirra með þetta frumkvæði Bjargar fór ekki fram hjá nokkrum manni.

Nokkrir fundarmenn óskuðu eftir upplýsingum um tilgreind atriði, t.d. hvernig hægt væri að gerast stofnfélagi að fundi loknum og var greint frá því að hringja mætti í Örn Bárð Jónsson eða Óla Þ. Guðbjartsson, auk þess sem senda mætti þeim tölvupóst með ósk um að gerast stofnfélagi. Þá voru allir fundarmenn hvattir til að taka með sér eyðublöð til skráningar stofnfélaga og bjóða öðrum að gerast stofnfélagar.

Örn Bárður Jónsson greindi frá því að stjórn samtakanna myndi halda sinn fyrsta fund síðar um kvöldið og hefja störf sín, enda að mörgu að hyggja. Hann hvatti fundarmenn til að safna sem flestum í samtökin enda væri það slagkraftur hinna mörgu sem ráðið gæti úrslitum í þessu máli.

Óli Þ. Guðbjartsson fundarstjóri og upphafsmaður að stofnun samtakanna sleit þar með stofnfundinum.

Jóhann M. Lenharðsson
fundarritari