145

Stjórnarfundur Hollvinasamtaka líknarþjónustu haldinn föstudaginn 30. september 2016 í kl.10:30 húsakynnum Oddfellowreglunnar á Akureyri.

Mættir voru:
Rún Halldórsdóttir formaður
Rósa Kristjánsdóttir ritari
Ingimar Einarsson meðstjórnandi
Kristín Sólveig Bjarnadóttir meðstjórnandi

Dagskrá fundarins:
1. Málþing dagsins
2. Framtíð samtakanna
3. Undirbúningur aðalfundar
4. Önnur mál

 

1.
Kristín Sólveig kynnti okkur undirbúning málþingsins sem við vorum komin norður til að taka þátt í.
Allir sem að því stóðu, veittu ómetanlegan stuðning að öllu leyti og voru boðnir og búnir að leggja sitt að mörkum án nokkurrar þóknunnar fyrir.
Forseti Íslands sendi ávarp á netinu þar sem hann gat ekki verið viðstaddur sjálfur og byrjaði málþingið á mjög svo hvetjandi og uppörvandi orðum hans. Kristín sagði okkur að Guðni og eiginkona hans hefðu unnið um tíma á námsárum sínum á líknardeild í Bretlandi svo hann þekkir til þeirrar starfsemi.

2.
Varðandi umræðuna um framtíð samtakanna var ákveðið að eiga fund með stjórn Lífsins um samvinnu og jafnvel samruna þessarra tveggja samtaka.
Nauðsynleg er að breyta lögum beggja samtaka ef af þessu verður, Rún mun ráðfæra sig við Tryggva Gíslason um þau mál.
Rósa tekur að sér að finna tíma með stjórn Lífsins.

3.
Ráðgert að hafa aðalfund samtakanna í nóvember og kynna þá tillögur að samvinnu/samruna samtakanna við Lífið.
Breyting er á stjórn Hollvinasamtakanna þar sem Helgi Ágústsson óskar eftir að ganga úr stjórninni strax af persónulegum ástæðum.
Ingimar ætlar að ganga í að yfirfæra prókúru en Rún mun ræða við Helga um frágang reikningsmála og koma þeim til endurskoðenda samtakanna.

 

Fleira var ekki á dagskrá þessa fundar og var honum slitið um kl.11:15.
Fundargerð ritaði Rósa Kristjánsdóttir

301

Stjórnarfundur Hollvinasamtaka líknarþjónustu haldinn þriðjudaginn 1.mars 2016 kl. 16:00 í húsakynnum Reykjavíkurakademíunnar við Þórunnartún í Reykjavík.

Mættir voru:
Rún Halldórsdóttir formaður
Helgi Ágústsson gjaldkeri
Rósa Kristjánsdóttir ritari
Ingimar Einarsson meðstjórnandi
Kristín Sólveig Bjarnadóttir meðstjórnandi

Dagskrá fundarins:
1. Samþykkt fundargerðar
2. Starf komandi árs
3. Framtíð samtakanna
4. Önnur mál

Rún setti fundinn og voru fundargerðir síðasta stjórnarfundar og aðalfundar bornar upp til samþykktar. Engar athugasemdir komu fram og skoðast þær samþykktar.

Enn á ný var rætt um hvernig við getum beitt okkur og hvert væri mest aðkallandi verkefni á nýju ári. Fundur með landlækni og velferðarnefnd ?
Varðandi áframhaldandi starf Hollvinasamtakanna voru til að byrja með frekar áform um að sameinast eins og t.d. Lífinu samtökum um líknarmeðferð og tillaga um að kalla til fundar með formanni Lífsins. Einnig kom fram tillaga um að færa líknardeildinni sjóð samtakanna. Umræða um að á næsta aðalfundi yrði lögð fram tillaga um félagaslit.

Mikilvægt að fylgja eftir ályktun aðalfundarins til ráðherra varðandi líknardeild á Akureyri. Kristín Sólveig var innt eftir því hvort eitthvað væri að frétta af þeim málum á vettvangi. Kristín Sólveig hafði sent fyrirspurn um málið til Bjarna Jónassonar forstjóra SAK nýverið en þar er enginn breyting á eða niðurstaða komin í málið. Vinnuhópur lagði til 2014 að þörf væri á viðbótarlegudeildum á SAK og mikilvægt að þar verði gert ráð fyrir líknardeild. Rekstrarfé vantar sem fyrr en ýmis líknarfélög eins og t.d. Oddfellowreglan eru tilbúin með penningagjafir verði lagt af stað.

Við þessa umræðu færðust fundarmenn allir í aukanna og kom fram tillaga frá Kristínu Sólveigu um málþing á Akureyri með haustinu þar sem málefni líknardeildar yrðu til umræðu og þar m.a. kallað eftir svörum frá ráðherra heilbrigðismála um á hverju strandar. Málþingið yrði kynnt sem samtal við almenning um líknarþjónustu á norðurlandi.

Gert yrði ráð fyrir að virkja velvilja Oddfellowreglunar og fá hjá þeim aðstöðu til fundarins og var Valgerður Valgarðsdóttir djákni nefnd en hún er fyrrum starfsmaður SAK og virk í Oddfellowreglunni. Kristín Sólveig mun hafa samband við hana svo og heimafólk sem kæmi að eins og t.d. starfsfólk heilsugæslunnar á Akureyri. Fleiri líknarfélög hafa sýnt þessu máli áhuga og velvilja og er nauðsynlegt að ræða við það fólk.

Fram kom tillaga um að ræða við Tryggva Gíslason um að flytja ávarp í upphafi og stýra málþinginu. Skemmst er frá að segja að Helgi ræddi strax við Tryggva og tók hann vel í að gera þetta. Fleiri tillögur komu um ræðumenn og má þar nefna Bjarna Jónasson sem myndi kynna sjónarmið SAK, Elísabet Hjörleifsdóttir frá Háskólanum á Akureyri sem myndi kynna Hvers vegna líknardeild?

Mikilvægt að fá ráðherra og landlækni til samtalsins.

Dagsetningar sem nefndar voru eru 23.eða 30.september 2016

Ákveðið var að vinna vel í undirbúningi fyrir vorið þannig að sem flest yrði komið á hreint fyrir sumarfrí.
Næsti fundur ákveðinn þriðjudaginn 3.maí kl.16:00 fundarstaður ekki ákveðin.
Formaður sleit fundi um kl.17:00

Fundargerð ritaði Rósa Kristjánsdóttir

 

583

Mætt voru: Ingimar Einarsson, formaður, Helgi Ágústsson, gjaldkeri, Rósa Kristjánsdóttir, ritari og Rún Halldórsdóttir, meðstjórnandi. Kristín Sólveig Bjarnadóttir, meðstjórnandi, boðaði forföll.

Fundurinn var fyrst og fremst til undirbúnings aðalfundar sem fór fram á sama stað síðar um kvöldið.

Ingimar vildi setja niður helstu áherslur okkar fyrir komandi starfsár en áfram eru það brýnustu verkefnin að ná eyrum stjórnvalda og ræða mikilvægi stefnumótunar fyrir líknameðferð í landinu.

Stjórnrmenn voru sammála um að stefna að því á nýju ári að fá fund með landlækni, velferðarnefnd Alþingis og velferðarráðuneytisfólki.

Helgi var beðinn um að setja saman ályktun sem lögð yrði fyrir aðalfundinn varðandi nauðsyn þess að stjórnvöld legðu líknarþjónustu á Akureyri lið svo hægt verði að opna líknardeild á sjúkrahúsinu og tryggja jafnframt fé til rekstrar hennar.

Ingimar vill gjarnan hætta sem formaður samtakanna vegna anna og var Rún beðin að taka að sér það hlutverk og fellst hún á það.

Fleira var ekki rætt að sinni en fundi var slitið um kl. 19:30.

Fundargerð ritaði Rósa Kristjánsdóttir.

 

580

Aðalfundur Hollvinasamtaka líknarþjónustu var haldinn í safnaðarheimili Neskirkju fimmtudaginn 12. nóvember 2015.

Fundarstjóri var Tryggvi Gíslason fyrrverandi skólameistari.

Dagskrá fundarins hófst með erindi Ásdísar Þórbjarnardóttur,hjúkrunar-og lýðheilsufræðings sem bar yfirskriftina:
Líknarþjónusta á Íslandi í alþjóðlegu ljósi.

(Hér fyrir neðan er úrdráttur frá fyrirlesara um efnið).

 Langvinn og lífshættuleg veikindi er lýðheilsuvandamál sem tengist þjáningu, virðingu, umönnunarþörf og lífsgæðum fólks. Þessi hratt vaxandi faraldur er talinn vanmetinn þrátt fyrir umfangið. Rannsóknaniðurstöður benda til að líknarmeðferð sé viðeigandi meðferðarúrræði fyrir langvinna, ólæknandi og lífshættulega sjúkdóma. Þrátt fyrir það njóta aðallega krabbameinsveikir líknarmeðferðar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt áherslu á að þjóðir heims setji sér það lýðheilsumarkmið þannig að allir langveikir einstaklingar sem þarfnast líknarmeðferðar hafi aðgang að sérhæfðri og heildrænni þjónustu.

Rannsókn hefur verið gerð með það að leiðarljósi að öðlast skýra framtíðarsýn og tryggja markvissa stefnumótun, svo auka megi möguleika á framþróun og efla almennan skilning á hvað felist í líknarþjónustu, hverjir eigi að fá líknarþjónustu og hvenær eigi að hefja slíka meðferð.

Til að ná markmiði rannsóknarinnar var í fyrsta lagi skoðuð staða þekkingar í heiminum ásamt því að kanna almennan skilning á líknarþjónustu. Í öðru lagi var tekið saman yfirlit yfir líknarþjónustu á Íslandi. Í þriðja lagi var skoðað hvernig önnur Evrópulönd hafa sett fram stefnumótun á sviði líknarþjónustu og hvað væri hægt að yfirfæra á íslenskan raunveruleika. Í fjórða og síðasta lagi var fengin innsýn í reynsluheim fagfólks með þverfaglega reynslu af umönnun langveikra einstaklinga.

Var það gert til að afla hugmynda varðandi framtíðarstefnumótun en skoðanir og reynsla þeirra sem starfa daglega við líknarmeðferð var talin mikilvægt framlag. Rannsóknaraðferðin var eigindleg og voru þátttakendur alls ellefu. Tekin voru sex hálf opin einstaklingsviðtöl og myndaður einn fimm manna rýnihópur sérfræðinga á sviði líknarmeðferðar. Fræðslumyndin „Líf og líkn“ var jafnframt greind og samþætt viðtölum en í myndinni eru tekin viðtöl við fjölmarga sérhæfða fagaðila á sviði líknarmeðferðar á Íslandi.

Niðurstöður leiddu í ljós að líknarmeðferð er þverfagleg, sérhæfð meðferð með skýra hugmyndafræði. Líknarþjónusta á Íslandi er bæði fjölbreytt og frambærileg en er aðallega í boði fyrir krabbameinssjúklinga. Grasrótin var upphafið og stuðningur félagasamtaka hefur verið ómetanlegur í þróun starfseminnar. Skilningur ráðamanna er til staðar en stefnumótun vantar. Niðurstöður sýndu jafnframt að fagfólk telur mikilvægt að líknarmeðferð verði í boði fyrir alla langveika og ólæknandi einstaklinga.

Að kaffihléi loknu tóku við venjuleg aðalfundarstörf.

 1. Skýrsla stjórnar. Formaður Ingimar Einarsson flutti skýrsluna og reikningar liðins starfsárs voru kynntir af gjaldkera Helga Ágústssyni.
 2. Umræður um skýrslu og reikninga. Hvorutveggja var samþykkt. Ákveðið var að á ekki verði greidd félagsgjöld á yfirstandandi á árinu 2015.
 3. Engar óskir höfðu borist þar  um.
 4. Kosning stjórnar fyrir komandi starfsár. Allir stjórnarmenn gáfu kost á sér áfram.
 5. Kosning tveggja skoðunarmanna. Báðir skoðunarmennirnir samþykktu að vera áfram.
 6. Önnur mál.

Samþykkt var ályktun aðalfundar Hollvinasamtaka líknarþjónustu og er hún eftirfarandi:

Aðalfundur Hollvinasamtaka líknarþjónustu skorar á íslensk stjórnvöld,Alþingi og ríkisstjórn að veita fé til stofnunar og reksturs líknardeildar við sjúkarhúsið á Akureyri. Undirbúningsvinna hefur staðið um árabil og brýn þörf nú til aðgerða af hálfu stjórnvalda.

Í lok fundar var rætt um mikilvægi upplýsinga fyrir okkar félagsmenn með því að efla heimasíðu samtakanna.

Miklvægt að halda árfam að þrýsta á stjórnvöld að setja fram stefnumótun varðandi líknarþjónustu.

Fram kom að framhald verður á umræðu um dauðann, en Ríksútvarpið mun  verða með umræðuþætti um efnið a.m.k. fram yfir áramót í þætti Ævars Kjartanssonar á sunnudagsmorgnum kl. 09:00.

Fleira var ekki til umræðu og var fundi slitið um 21:30.
Fundargerð ritaði Rósa Kristjánsdóttir, ritari Hollvinasamtaka um líknarþjónustu.

579

 47. stjórnarfundur í Hollvinasamtaka líknarþjónustu, haldinn þann 17. september 2015
kl. 16:30 í Reykjavíkur-Akademíunni, Skúlatúni 2, Reykjavík.

 

Mætt voru: Helgi Ágústsson, Ingimar Einarsson, Kristín S. Bjarnadóttir og Rún Halldórsdóttir. Rósa Kristjánsdóttir boðaði forföll.

 

Dagskrá:

1.     Samþykkt dagskrár. Dagskrá fundarins var samþykkt samhljóða. 

2.      Ráðstefnan 16. apríl um Listina að deyja. Stjórnarmeðlimir voru sammála um að vel hefði tekist til og að almenn ánægja hefði verið með ráðstefnuna sem var þétt setin. Ingimar mun hafa samband við Ævar Kjartansson sem stýrði ráðstefnunni og kanna hvort einhvers konar samantekt á því sem þar fór fram hafi verið gerð.

3.      Staða líknarþjónustunnar.

–          Heimsókn á líknardeild LSH 12. janúar 2015. Hluti stjórnar Hollvinasamtakanna heimsótti og skoðaði Líknardeildina í Kópavogi á vordögum og ræddu við forsvarsmenn deildarinnar. Þar kom m.a. fram að deildin þarfnaðist helst stuðnings við gerð bæklings um hvað fælist í líknarmeðferð.
–          Áformaður fundur með landlækni. Samhljóða samþykkt að fresta fundi með landlækni þar sem mikið álag er á embætti hans um þessar mundir sökum verkfalla í heilbirgðiskerfinu.

4.      Framtíð samtakanna og samstarf við aðra aðila. Stjórnarmeðlimir voru sammála um að þörf  sé áfram fyrir Hollvinasamtök líknarþjónustu sem geti í samvinnu við önnur félög á sviðinu stuðlað með ýmsum hætti að góðri líknarþjónustu á Íslandi. Áherslan ætti bæði að vera á fræðslu og umræðu, sem og á þrýsting á stjórnvöld hverju sinni. Stjórnarmeðlimir voru sammála um að samvinna við önnur félög væru nauðsyn því samtakamátturinn skili betri árangri. 

5.      Logo samtakana. Rætt var um að láta hanna logo fyrir samtökin. Hugmyndir sem komnar eru, voru annars vegar biðjandi hendur og hins vegar einhvers konar útfærsla á sólarlagi. Málinu var frestað fram yfir aðalfund.

6.      Alþjóðlegur dagur líknar 10. október 2015.

–          Hidden Lives, Hidden Patients/Líf og líkn í felum. Ákveðið var að stofna ekki til sérstakrar dagskrár á alþjóðlegum degi líknar í ár en Kristín stakk upp á að bjóða þess í stað upp á upp á fræðsluerindi á aðalfundi félagsins í nóvember. Það var samþykkt og Ingimar stakk upp á að fá Ásdísi Þórbjarnardóttur hjúkrunarfræðing M.Sc. til að kynna niðurstöður meistararannsóknar sinnar, “Líknarmeðferð á Íslandi í alþjóðlegu ljósi”. Ingimar mun hafa samband við Ásdísi. Einnig var stungið upp á fræðsluerindi frá Þórhildi Kristinsdóttur öldrunarlækni sem hélt áhugvert erindi á ráðstefnunni í vor. Rún tók að sér að heyra í henni.

7.      Önnur mál.

–          a) Aðalfundur Hollvinasamtakanna. Ingimar vinnur að undirbúningi fyrir aðalfund sem verður haldinn í nóvember næstkomandi. Helgi tók að sér að fá Gunnar Gunnarsson til að skoða reikninga samtakanna. Samþykkt var samhljóða að innheimta ekki félagsgjöld á árinu 2015.  

 

Fleira var ekki tekið fyrir, fundi var slitið kl. 17:25. 

Kristín S. Bjarnadóttirfundarritari

 

633

 Skýrsla
stjórnar Hollvinasamtaka líknarþjónustu
fyrir starfsárið 2014-2015

 

Stjórn Hollvinasamtaka líknarþjónustu hélt fimm fundi á starfsárinu: 27. október og 25. nóvember 2014 og 16. apríl , 17. september og 12. nóvember 2015.

Að loknum aðalfundi 27. október 2014 kom stjórnin saman til að fara yfir stöðu mála. Tryggvi Gíslason hafði þá tilkynnt að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Í stað hans kaus aðalfundur Rún Halldórsdóttur, svæfingalækni á Akranesi, til setu í stjórninni með dynjandi lófataki. Aðrir stjórnarmenn voru sömuleiðis samþykktir einróma til setu í stjórninni. Þá voru þau Katrín Þorsteinsdóttir og Jóhann M. Lenharðsson endurkjörin skoðunarmenn reikninga. Stjórn Hollvinasamtakanna var ekki alveg viðbúin þessum hræringum og ákvað að bíða með val á formanni til næsta fundar.

Á næsta fundi 25. nóvember lýsti Ingimar Einarsson sig reiðubúinn til að taka að sér formennsku á yfirstandandi starfsári. Verkefnum stjórnar var því skipt á eftirfarandi hátt:

Ingimar Einarsson, formaður.
Helgi Ágústsson, gjaldkeri.
Rósa Kristjánsdóttir, ritari.
Kristín Sólveig Bjarnadóttir og Rún Halldórsdóttir, meðstjórnendur.

Á fundinum var rætt um að huga þyrfti betur að stöðu samtakanna og missa ekki sjónar af upphaflegu markmiðum um að  koma að umræðu um heilbrigðisstefnu stjórnvalda og mikilvægi líknarþjónustu á landinu öllu. Sýnt væri að mótun heilbrigðisstefnu til lengri tíma hefði setið á hakanum og líknarþjónusta hafi heldur ekki verið hluti af fyrirhuguðum aðgerðum heilbrigðisyfirvalda um betri heilbrigðisþjónustu.

Stjórnarmeðlimir voru sammála um að gera gangskör að því að bæta heimasíðu samtakanna og sinna betur upplýsingaskyldu sinni við félagsmenn. Var því fljótlega á þessu ári ráðist í hönnun nýrrar vefsíðu.

Á þessum fundi var greint frá undirbúningi að ráðstefnu um líknarmálefni sem fengið hafði vinnuheitið „Samtal um dauðann“ og ákveðið hafði verið að halda þann 16. apríl í Háskóla Íslands. Hollvinasamtökin áttu ásamt Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins, Lífinu samtökum um líknarmeðferð og Landspítalanum frumkvæði að ráðstefnunni. Aðrir sem tóku þátt í undirbúningsstarfinu voru fulltrúar frá Þjóðkirkjunni, Háskóla Íslands, Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Nýrri dögun.

Þann 12. janúar á þessu ári heimsótti nýr formaður og tveir aðrir stjórnarmeðlimir Hollvinasamtakanna líknardeild Landspítalans í Kópavogi og ræddu við forsvarsmenn og starfslið deildarinnar. Tilgangurinn var að fá innsýn í stöðu mála og fá upplýsingar frá fyrstu hendi um hvar skórinn kreppir helst að. Fram kom að um 150 sjúklingar deyja á líknardeildinni árlega. Þar eru nú 12 legurými og einnig er starfrækt dagdeild og heimaþjónusta.

Þrátt fyrir að legurýmum hafi fækkað í líknarþjónustunni á suðvesturhorni landsins þá virðist sem líknardeild Landspítalans hafi, í samstarfi við sjúkrahúsin og félagasamtök, náð að skipuleggja og nýta betur þá þjónustu sem þegar er í boði. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að líknarþjónusta á víða undir högg að sækja og líknardeild á Akureyri, sem mikil þörf er á, er enn fjarlægur draumur.

Fyrrnefnd ráðstefna, sem nú hafði fengið heitið „ Listin að deyja“, var haldin í hátíðarsal Háskóla Íslands þann 16. apríl síðastliðinn. Aðsókn fór fram úr björtustu vonum undirbúningsnefndar og var það hald manna að um 500 manns hafi sótt ráðstefnuna. Ráðstefnan var öllum opin og ljóst þykir af þessari miklu þátttöku að opin umræða um málefnið er þörf.

Rósa Kristjánsdóttir, djákni og ritari Hollvinasamtaka líknarþjónustu, setti ráðstefnuna og minnti á að hún og aðrir þeir sem staðið höfðu að undirbúningnum hefðu það sameiginlegt að hafa starfað í nálægð dauðans í mörg ár og fundið þörfina fyrir samtalið um hann.

Markmiðið með ráðstefnunni var að opna  umræðuna um dauðann sem hluta af veruleikanum og hinu daglega lífi. Dauðinn væri óumflýjanlegur hluti lífsins og útgangan úr lífi okkar merk og mikilvæg stund, rétt eins og inngangan. Sú staðreynd að öll munum við deyja ætti að vera okkur sem einstaklingum og samfélagi hvatning til að lifa í samræmi við þá staðreynd. Opnská umræða gæti fært fjölskyldum vissan létti og meiri sátt. Svo nefnd séu nokkur þeirra atriða sem bar á góma á fundinum.

Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni var Peter Fenwick, prófessor emeritus í taugasálfræði, og var heitið á erindi hans:

 • The importance of end of life experiences for living and dying.

 

Prófessor Peter Fenwick hefur stundað rannsóknir á upplifun fólks, virkni heilans og reynslu í aðdraganda andláts.

Að loknu erindi prófessors Fenwick kynnti Sveinn Kristjánsson vefinn aevi.is og þar á eftir var  pallborð. Var hér um að ræða bæði fróðlegar og skemmtilegar umræður.

Þátttakendur í pallborðinu voru:

 • Andri Snær Magnason, rithöfundur.
 • Arndís Jónsdóttir, aðstandandi.
 • Jón Ásgeir Kalmansson, heimspekingur,
 • Sólveig Birna Júlíusdóttir, sálfræðinemi,
 • Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur, og
 • Þórhildur Kristinsdóttir, læknir.

Næsti stjórnarfundur var 16. apríl eða sama dag og ráðstefnan Listin að deyja var haldin. Af því tilefni ákvað stjórnin að veita undirbúningsnefnd ráðstefnunnar 100 þús. kr. fjárveitingu til þess að standa straum af kostnaði við ráðstefnuhaldið. Á fundinum var bent á nauðsyn þess að taka saman yfirlit um stöðu líknarþjónustunnar. Einnig komu fram óskir um að efna til fundar um líknarmálefni með nýjum landlækni.

Í framhaldi af því var rætt um hvort Hollvinasamtökin ættu að hafa frumkvæði að því að efna til málþings um forgangsröðun í heilbrigðismálum. Þannig ráðstefnur voru haldnar hér á landi og víða um lönd í lok síðustu aldar og byrjun þessarar. Það væri hins vegar spurning hvort Hollvinasamtökin ættu ein og sér að standa að slíku ráðstefnuhaldi eða leita eftir samstarfsaðilum um slíkt verkefni.

Þann 17. september sl. kom stjórn Hollvinasamtakanna saman til fundar í Reykjavík. Til umræðu á fundinum var ráðstefnan um Listina að deyja, staða líknarþjónustunnar, framtíð samtakanna og samstarf við aðra aðila, LOGO samtakanna, alþjóðlegur dagur líknar 10. október 2015 og komandi aðalfundur.

Stjórnarmeðlimirnir lýstu aftur ánægju sinni með hvernig tekist hafði til með ráðstefnuna 16. apríl og þá sérstaklega hina miklu þátttöku í henni. Jafnframt var minnt á að nauðsynlegt væri að flýta upplýsingaöflun um líknarþjónustu í landinu. Ein leið gæti verið að efna til fyrirlestra og fræðslufunda um líknarmálefni. Sömuleiðis væri framtíðarstefnumótun  samtakanna og samstarf við aðra aðila mikilvægt, því samtakamátturinn skili jafnan betri árangri en þegar hver og einn er að bauka í sínu horni.

Í lok fundarins var fjallað var um hugmyndir að LOGÓi samtakanna, en öllum ákvörðum þar að lútandi var slegið á frest. Ekki var efnt til sérstakrar dagskrár á alþjóðlegum degi líknar 10. október, en þema dagsins í ár var Hidden Lives, Hidden Patients / Líf og líkn í felum og bíður frekari umfjöllun um þetta efni betri tíma. Loks var rætt um undirbúning aðalfundar og ákveðið að halda hann í byrjun nóvember.

Síðasti stjórnarfundurinn á starfsárinu var kl. 19:00 í dag 12. nóvember til að undirbúa þennan aðalfund.

Var því sérstaklega fagnað að Ásdís Þórbjarnardóttir, hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur, skuli hafi tekið að sér að flytja erindi á aðalfundi. Heiti fyrirlestarins er „Líknarþjónusta á Íslandi í alþjóðlegu ljósi.“ Þess ber að geta að Ásdís varði meistaraverkefni með sama nafni við Háskólann í Reykjavík árið 2009 og hefur síðustu árin starfað við hjúkrunar- og ráðgjafarþjónustuna Karitas. Er það von stjórnar Hollvinasamtakanna að fyrirlestrahald á aðalfundi eða í tengslum við hann sé aðeins byrjun á meira samstarfi við stofnanir, félagasamtök, fagfólk og aðra sem láta sig málefni líknarþjónustu einhverju varða.

Bestu þakkir.

 

 

Flutt af formanni á aðalfundi 14. nóvember sl.

720

46. stjórnarfundur í Hollvinasamtökum líknarþjónustu, haldinn í safnaðarheimili Neskirkju fimmtudaginn 16. apríl 2015 kl. 15:30.

Mætt voru: Ingimar Einarsson, Helgi Ágústsson, Kristín S. Bjarnadóttir og Rún Halldórsdóttir. Rósa Kristjánsdóttir var upptekin við undirbúning fyrir ráðstefnu á vegum samtakanna og boðaði því forföll.
Dagskrá:

1. Samþykkt dagskrár. Dagskrá fundar lá fyrir og var samþykkt samhljóða.

2. Staða líknarþjónustu í landinu. Rætt var um að safna þurfi saman upplýsingum um stöðu líknarþjónustu í landinu til undirbúnings fundar með landlækni. Rætt var um að rekja á fundi með landlækni í örstuttu máli sögu hollvinasamtakanna en fyrst og fremst verði áherslan á að hverju þarf að vinna í framtíðinni. Samhljóða samþykkt að vinna að minnisblaði fyrir fund með landlækni á vordögum.

3. Málþing um forgangsröðun í heilbrigðismálum. Málþing um forgangsröðun í heilbrigðismálum voru haldin á vegum ráðuneytis í Reykjavík árið 1998 og árið 2004 á Akureyri. Ingimar kom með þá tillögu að hollvinasamtökin haldi slíkt málþing næstkomandi haust. Hugsanlega gæti orðið um 3-4 klst. málþing að ræða. Ingimar mun skoða hvað áður hefur verið fjallað um á fyrri þingum og koma með tillögur að efni fyrir málþing sem stefnt er að hollvinasamtökin standi fyrir í haust.

4. Heimasíða. Stjórnarmeðlimir lýstu yfir ánægju sinni með nýtt útlit heimasíðu hollvinasamtakanna en nýr aðili hefur tekið við rekstri hennar.

5. Styrkur til ráðstefnunnar Listin að deyja. Rósa Kristjánsdóttir sem er fulltrúi hollvinasamtakanna í undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnuna “Listin að deyja” sem haldin verður í Háskóla Íslands nú á eftir, hafði fyrir fundinn óskað eftir 100.000 kr. framlagi samtakanna til að standa straum af kostnaði við ráðstefnuna. Jafnframt lagði hún til að Helgi Ágústsson, sem fór með aðalfyrirlesarann Peter Fenwick prófessor í taugasálfræði og fjölskyldu hans í kynnisferð út fyrir borgina í gær, fái greiddan útlagðan kostnað við ferðina. Þetta var samhljóða samþykkt.

6. Logo félagsins. Rósa Kristjánsdóttir hafði lagt það til fyrir fundinn að rætt yrði hvort hanna ætti logo fyrir hollvinasamtökin. Vel var tekið í þessa hugmynd og stakk Helgi Ágústsson upp á falast mætti eftir að nota sem fyrirmynd, mynd sem hann þekkir til af biðjandi höndum. Kristín S. Bjarnadóttir stakk upp á einhvers konar útfærslu af sólarlagi. Slíkt logo myndi ef til vill höfða líka til þeirra sem eru ekki trúaðir. Ákveðið var að fá að sjá myndina sem Helgi hafði í huga, hann mun senda stjórnarmeðlimum hana í tölvupósti.

7. Fyrirspurn um starfsemi samtakanna. Ingimar greindi frá fyrirspurn sem hann fékk í tölvupósti frá Mirjam Maeekalle en hún spurði út í starfsemi samtakanna og hvort hún gæti lagt þeim lið með einhverjum hætti. Ingimar mun áframsenda tölvupóstinn á stjórnarmeðlimi.

8. Heimilsfang samtakanna. Nokkrar umræður urðu um heppilegt heimilisfang en það er í Neskirkju eins og er. Ingimar bauðst til að kanna hvort hann gæti nýtt pósthólf á vinnustað sínum fyrir samtökin og var það samhljóða samþykkt.

9. Önnur mál.

a. Innheimta félagsgjalda. Samþykkt var að innheimta 3000 kr. félagsgjöld um svipað leyti og málþingið verður í haust.

b. Kristín S. Bjarnadóttir benti á að huga þurfi að því að fjölga félagsmönnum, hún stakk upp á að bjóða sérstaklega inngöngu í félagið á málþinginu í haust og var það samþykkt samhljóða.

 

Fleira var ekki tekið fyrir, fundi var slitið kl. 16:15 og haldið til ráðstefnunnar um listina að deyja.
_______________________
Kristín S. Bjarnadóttir
fundarritari

615

Fundargerð stjórnar Hollvinasamtaka líknarþjónustu.

45. fundur haldinn 25. nóvember 2014 kl. 17:00 í húsakynnum Félags íslenskra bókaútgefenda, Barónsstíg 5.
Mætt: Helgi Ágústsson, Ingimar Einarsson, Kristín Sólveig Bjarnadóttir, Rósa Kristjánsdóttir og Rún Halldórsdóttir.

Dagskrá:
1. Ný stjórn skiptir með sér verkum.
2. Framtíð samtakanna.
3. Önnur mál.

 

Rún Halldórsdóttir tók sæti í stjórninni. Var hún boðin velkomin og henni gerð grein fyrir tilurð samtakanna og helstu verkefnum fram til þessa.

Ingimar féllst á að taka að sér formennsku og skiptast þá verkefni stjórnar á eftirfarandi hátt:
Ingimar Einarsson, formaður.
Helgi Ágústson, gjaldkeri.
Rósa Kristjánsdóttir, ritari.
Kristín Sólveig Bjarnadóttir og Rún Halldórsdóttir meðstjórnendur.

Huga þarf að framtíð samtakanna og missa ekki sjónar af upphaflegu markmiðunum um að   koma að umræðu um heilbrigðisstefnu stjórnvalda og mikilvægi líknarþjónustu á landinu öllu. Heilbrigðisstefnan hefur ekki verið tekin til umræðu í þinginu lengi og ástandið í heilbrigðiskerfinu er mjög viðkvæmt þessa stundina. Líknarþjónusta hefur heldur ekki verið hluti af umræðu um betri heilbrigðisþjónustu.

Helgi benti á mikilvægi þess að kalla eftir fundi með Velferðarnefnd Alþingis. Ákveðið var að undirbúa slíkan fund í janúar og stefna jafnframt að því að hitta nýjan landlækni sem fyrst.

Stjórnin er sammála um að gera gangskör að því að bæta heimasíðu samtakanna og sinna betur upplýsingaskyldu við félagsmenn. Ingimar ætlar að ræða við fyrrverandi formann, Tryggva Gíslason og fá upplýsingar um hverjir hafi séð um heimasíðuna.

Framundan er samvinnuverkefni Hollvinasamtakanna og Háskóla Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Læknafélags Íslands, Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, Lífsins samtaka um líknarþjónustu og Nýrrar dögunar. Vinnuheiti verkefnisins er „Samtal um dauðann“ og hefur verið ákveðið að halda ráðstefnuna 16. apríl 2015 í húsakynnum Háskóla Íslands, en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvar.

Aðalfyrirlesari þessarar ráðstefnu er Peter Fenwick, breskur taugasálfræðingur, og svo er hugmynd um að fá fólk í panel sem hefur reynslu úr sínu lífi af missi ástvinar. Málið er á vinnslustigi en gert ráð fyrir að byrja strax á nýju ári að auglýsa og ganga frá dagskrá.

Hollvinasamtökin koma til með að taka þátt í kostnaði við ráðstefnuna og vinna ásamt öðrum að umgjörð hennar. Helgi hefur tengsl inn í  RÚV og verður gott að hafa þá tengingu þegar kynning ráðstefnunnar hefst á nýju ári. Hann hefur sömuleiðist boðist til að kynna landið fyrir Peter Fenwick og hans fólki. Því tilboði verður komið á framfæri.

Stjórnin mun vinda sér í að koma stefnumálum samtakanna á framfæri af fullum krafti á nýju ári og vonandi verða heilbrigðismálin þá komin í betri farveg.

Ekki var fleira rætt á fyrsta fundi nýrrar stjórnar.

 

Fundi var slitið kl. 18:00.

 

Fundargerð ritaði Rósa Kristjánsdóttir.

 

318

Fundargerð stjórnar Hollvinasamtaka líknardeilda.

41. fundur stjórnar Hollvinasamtaka líknarþjónustu haldin í framhaldi af aðalfundi samtakanna þriðjudaginn 29. október 2013 kl: 21:00

Dagskrá
1. Stjórnin skiptir með sér verkum.
2. Málefni næstu missera.
3. Önnur mál.

Stjórnarmenn  mæltu með að Tryggvi Gíslason tæki við sem formaður og samþykkti hann það. Helgi Ágústsson var kjörinn gjaldkeri, Rósa Kristjánsdóttir ritari og Kristín Sólveig Bjarnadóttir og Dr. Ingimar Einarsson meðstjórnendur.  Allir stjórnarmenn voru mættir á fundinn.

Tryggvi ræddi mikilvægi þess að skrifa greinar í blöð og er sjálfur með greinar í smíðum sem framlag Hollvinasamtaka líknardeilda.  Mikilvægt að við fáum notið krafta Ingimars í alþjóðlegu samhengi í nafni samtakanna.  Mikilvægt að stefna að auknu samstarfi við önnur félagasamtök sem hafa heilbrigðismál á sinni stefnuskrá. Á aðalfundinum var t.d. Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands, mikilvægt að stefna að því efir áramót að funda með LÍ, FÍh, Lífinu samtökum sjúklinga og aðstandenda þeirra, nefnt var Bergmál en þau hafa séð um afþreyingu fyrir krabbameinsgreinda og þeirra aðstandendur til margra ára. Ráðgert að Kristín Sólveig skoði hvenær í febrúar hún gæti komið og við þá fundað með sem flestum af ofannefndum.

Mikilvægt fyrir okkur að fá einhvern góðan í lið með okkur til að halda heimasíðunni okkar í betra standi mikilvægt að koma upplýsingum til félagsmanna reglulega þar inn.
Rósa nefndi mikilvægi þess að geta sett inn fundartíma fyrir næsta tímabil. Leggja upp með að hafa fimm stjórnarfundi yfir tímabilið.
Setja okkur það markmið að vera með ráðstefnu næsta haust og koma á fundi fulltrúa Hollvinasamtakanna og velferðarnefndar alþingis sem fyrst.

Fundi slitið um 21:30.
Ákveðið að næsti fundur verði þegar Kristín Sólveig á heimangengt í janúar-febrúar 2014.
Fundargerð ritaði Rósa Kristjánsdóttir

 

305

Aðalfundur Hollvinasamtaka líknarþjónustu var haldinn í Neskirkju þriðjudaginn 29. október 2013 kl. 20:00

Dagskrá
1. Skýrsla stjórnar og reikningar liðins starfsárs
2. Umræður um skýrslu og reikninga
3. Lagabreytingar
4. Kosning stjórnar fyrir komandi starfsár
5. Kosning tveggja skoðunarmanna
6. Önnur mál

Formaður, Örn Bárður Jónsson setti aðalfund og skipaði Óla Þ. Guðbjartsson fundarstjóra.
1.    Formaður flutti skýrslu stjórnar. Tryggvi Gíslason gjaldkeri lagði fram reikninga Hollvinasamtaka líknarþjónustu. Um 400 félagar greiddu félagsgjald til samtakanna.

2.   Umræður urðu um skýrslu stjórnar og reikninga.  Fundarstjóri þakkaði stjórninni störfin. Undanfarin tvö ár hafa verið haldnar tvær ráðstefnur. Sú fyrri um heilbrigðiskerfið í heild þar sem m.a. var veitt innsýn inn í störf í heilbrigðiskerfinu í Noregi sem hafa farið inn á nýjar brautir með notendamiðuðu heilbrigðiskerfi. Seinni ráðstefnan fjallaði um gildi líknarþjónustu.

3.  Engar lagabreytingar voru á dagskrá.

4.  Kosning stjórnar. Formaður Örn Bárður gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu vegna anna. Fundarstjóri þakkaði Erni Bárði hversu drengilega hann brást við í upphafi og hefur staðið í stafni og stýrt með sóma. Dr. Ingimar Einarsson var kjörinn í stjórn.

5.  Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga. Þau sem verið hafa síðasta voru endurkjörin:Katrín Þorsteinsdóttir og Jóhann Lenharðsson.

6.  Önnur mál.  Fráfarandi formaður Örn Bárður Jónsson þakkaði samstarf innan stjórnar. Mikilvægt væri að vekja athygli á líknarþjónustu og þar væri þátttaka almennings nauðsynleg. Erni Bárði var færð lítil gjöf frá samtökunum nóvemberkaktus sem hann vonar að endist fram í desember.
Tryggvi Gíslason benti á mikilvægi þess að benda á það sem vel er gert í heilbrigðiskerfinu. Mest væri talað um það sem aflaga hefur farið.  Mikilvægt væri einnig að efla heimasíðuna Hollvinasamtakanna og kynna þar sem starf þeirra.

Fundi slitið um 21:00
Rósa Kristjánsdóttir ritari